144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Einstaklingar í brýnni þörf fyrir hjúkrun hafa valið að óska eftir hjúkrunarheimili en við höfum ekki mætt þeirri þörf. Það væri frábært að geta boðið þessu fólki valfrelsi en eins og staðan er núna bjóðum við bara biðlista og þeir munu halda áfram að lengjast næstu 15 árin.

Eins og hv. þm. Karl Garðarsson bendir á er fjárfestingarþörfin í nýjum hjúkrunarrýmum næstu 15 árin nærri því sama upphæð og rannsóknar- og meðferðarkjarni á nýjum Landspítala sem við höfum ekki komið í verk á síðustu 15 árum að ráðast í. Það er þess vegna algerlega ljóst að þingið þarf að láta heilbrigðisráðherra í té fjármuni til mun meiri uppbyggingar en nú er. Það þarf líka að leggja áherslu á önnur úrræði og mér þykir miður að hlutir eins og heimahjúkrunarsamvinnan fyrir norðan, samvinna við sveitarfélög um að samþætta ólíka þjónustu, skuli ekki hafa haldið áfram eins og áður var og að við séum ekki að gera meira í þeim þætti. Ég vona að ráðherra komi betur inn á það hvernig við getum aukið gæði í þjónustunni vegna þess að gæði í sjálfri þjónustunni eru líka brýnt úrlausnarefni.

Ég skil hæstv. ráðherra þannig að áhersla hans sé á það að auka framboð fyrst og fremst í Reykjavík, á Árborgarsvæðinu og í Norðurþingi þar sem skórinn kreppir mest.

Ég spyr hæstv. ráðherra um hið stóra nýframkvæmdarverkefni á Sléttuvegi, hvort hann hyggist koma því verkefni af stað áður en kjörtímabilinu lýkur og hvort ekki sé nauðsynlegt að við sjáum innan ekki allt of langs tíma raunverulegar framkvæmdir fylgja þeim góðu orðum sem koma frá okkur stjórnmálamönnum úr öllum flokkum í þinginu.