144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er komin til síðari umræðu tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Þetta er tiltölulega einföld grein en í tillögunni sjálfri er ansi mikið af upplýsingum og fróðleik þar sem farið er í gegnum ýmis atriði.

Við í atvinnuveganefnd höfum haft þessa þingsályktunartillögu til meðferðar á fundum nefndarinnar og eiginlega unnið þá vinnu samhliða frumvarpi um breytingu á raforkulögum sem snýr að kerfisáætlun. Ég legg áherslu á að mjög mikilvægt er að horfa á þau mál saman vegna þess að hvað varðar það sem kemur fram í þingsályktunartillögunni og það sem kemur fram í skýrslunni sem skrifuð var um jarðstrengi í jörð er þetta nefndarálit hér mjög ítarlegt, farið er í gegnum þau atriði og meðal annars vitnað í það í frumvarpi um breytingu á raforkulögum, sem vert er að hafa í huga.

Ég skrifa upp á nefndarálitið ásamt sex öðrum þingmönnum vegna þess að mér finnst þetta vera tímamótaþingslyktunartillaga. Hún er vafalaust ekki fullkomin en sem fyrsta þingsályktunartillaga um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína er hún mjög merkileg og á eftir að aðstoða okkur við að auka lagningu raflína í jörð í stað loftlína sem eru, eins og ég hef áður sagt, oft og tíðum það allra ljótasta sem við horfum á í umhverfinu, alveg sama hvort verið að leggja línur fyrir almenna notendur eða stórnotendur.

Krafan um jarðlínur frekar en loftlínur hefur aukist mjög og byggist einkum á umhverfissjónarmiðum, sem er alveg hárrétt sjónarmið. Þeir sem skipa meiri hluta í nefndinni um þetta, og ég er einn þeirra, taka undir kröfuna, ég vek athygli á því, og telja að sem hæst mögulegt hlutfall raflína ætti að leggja í jörð. Meiri hlutinn bendir þó á að aðstæður okkar eru misjafnar og að bæði línur í jörð og í lofti hafa í för með sér umhverfisáhrif. Ég legg áherslu á að í nefndarálitinu tekur meiri hlutinn tekur undir þá kröfu að leggja meira í jörð. Það er mikilvægt að hafa í huga.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga það sem nefndin gerir breytingartillögu um. Í þingsályktunartillögunni eins og hún kemur frá ráðherra er fjallað að miða skuli við núvirtan stofnkostnað og rekstrarkostnað yfir líftíma mannvirkis og að sú tala megi vera 1,5. Við getum tekið sem einfalt dæmi að kosti línulögn 1 milljarð mættu strengur í jörð kosta 1,5 milljarða. Í breytingartillögu nefndarinnar er lagt til að í stað þess að miða við sinnum 1,5 megi það fara í sinnum 2. Það segir sig sjálft að ef línulögn kostar 1 milljarð mætti rafstrengur kosta 2 milljarða og teljum við það til mikilla bóta. Síðan förum við í stofnkostnaðinn. Þetta er mikilvægt atriði að hafa í huga. Það hvort tvisvar sinnum dugar veit ég ekki en það er rétt að það komið hefur fram hjá gestum sem komu til nefndarinnar. Við vitum að vörugjöld af rafstrengjum hafa verið felld niður. Það var mjög ósanngjarnt að rafstrengir skyldu bera vörugjöld en loftlínur ekki. Þau hafa verið felld niður þannig að verð á köplum hefur lækkað. Síðast en ekki síst var ákaflega athyglisvert að fá þær upplýsingar að samkeppnisyfirvöld í Evrópu hefðu komist að þeirri niðurstöðu að einhverjir framleiðendur jarðstrengja hefðu haft ólöglegt samráð um verðlagningu og voru dæmdir til sektar fyrir það. Vonandi hefur það þau áhrif, sem oft vill verða þegar samráð hefur verið afhjúpað, og menn dæmdir fyrir það og fyrirtæki hætta þeim ljóta leik, að vöruverð á jarðstrengjum lækkar mikið.

Það er einn þáttur í viðbót sem hefur áhrif til lækkunar á jarðstrengjum og það er heimsmarkaðsverð á áli. Það hefur verið lægra en áður og hefur stuðlað að lægra verði á strengjum. Sem betur fer er töluverð samkeppni í framleiðslu á strengjum. En við skulum hafa í huga að álverð getur hækkað og mundi þá hafa í för með sér hækkun á strengjum, á sama hátt og það hefur í för með sér lækkun.

Inn í umræðuna um kerfisáætlunina blandaðist ýmislegt, m.a. friðlýst svæði o.fl. sem okkur er annt um og viljum ekki skemma. Ég ítreka það sem ég sagði áðan um umhverfissjónarmiðin í nefndarálitinu. Við gerum þá kröfu að tekið sé meira tillit til þeirra. Sérstaklega er tekið fram í tillögunni að til viðbótar við viðmið og meginreglur sem lagðar eru til, m.a. breytingartillöguna okkar um sinnum tveir í stað 1,5, skuli ávallt forðast eins og kostur er röskun friðlýstra svæða og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. um náttúruvernd. Þetta er mikilvægt atriði að hafa í huga þar sem mesti ágreiningurinn stendur oft um það. Vonandi verður þessi þingsályktunartillaga og samþykkt hennar á Alþingi leiðarljós og vonandi lesa menn líka nefndarálitið sem fylgir með tillögunni. Hér er ansi langt gengið til að koma til móts við sjálfsögð sjónarmið. Við verðum líka að hafa í huga, eins og framsögumaður nefndarálitsins sagði áðan, að þetta verður auðvitað að meta í hverju og einu tilfelli. Það getur orðið töluvert umhverfislýti af því að fara til dæmis í gegnum ósnortið hraun. Það er dálítið breiður kafli sem þarf að fara, það er vegur til að leggja og svo kapalstrengurinn. Það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að ef við förum um gróið svæði þar sem til dæmis eru tré sé ekki hægt að planta trjánum aftur ofan í sárið sem myndast við kapalskurðinn vegna þess að eigandinn eða umsjónaraðilinn þarf að geta brugðist strax við ef bilun verður í strengjum, sem tekur oft lengri tíma að gera við en loftlínu, það þarf að vera hægt að fara beint í það í stað þess að byrja á því þá að höggva tré. Í einstaka tilfellum þurfum við að taka tillit til þessa þáttar.

Fjallað er um eitt atriði hér sem hnykkt er svolítið betur á í nefndarálitinu. Ég er mjög ánægður með það vegna þess að við höfum skýrt dæmi um ágreining milli sveitarfélags og flugmálayfirvalda á Akureyri og Landsnets sem hefur ætlað að leggja loftlínu innan við flugvöllinn, sem ýmsir hafa mótmælt. Eitt af þeim skilyrðum sem er sett fram hér, sem kostnaðarviðmiðið á ekki við, er í námunda við flugvelli, þá skal fara aðra leið. Í nefndarálitinu er bætt við, og ég er mjög ánægður með það og beitti mér fyrir því að það yrði sett inn, þannig að ekki er eingöngu talað um geislann, skulum við segja, út frá flugvellinum við enda brauta heldur er einnig talað um flugöryggistæki, svo sem stefnuvita og ratsjár. Þær eru nefnilega stundum, eins og í tilfelli við Akureyrarflugvöll, utan þessa lendingargeisla, utan þess helgunarsvæðis. Það er sett í nefndarálitið og þá verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess að svæði sem geyma til dæmis ratsjárhús eða stefnuvitahús kemur inn í það. Það er gott að ræða þetta með því að taka dæmi og því skulum við segja sem svo að loftlínan þarna kosti 500 millj. kr. Miðað við breytingartillöguna mætti kostnaðurinn fara í 1 milljarð en þar að auki er þarna ávinningur við rafstrengina því að loftlínur þurfa oft og tíðum, eins og í þessu tilfelli við enda Akureyrarflugvallar, að vera lengri. Jarðstrengurinn verður styttri og jafnvel hægt að bora hann undir flugbrautina ef út í það færi, eini ókosturinn væri sá ef það bilaði akkúrat þar undir en með ídrætti og öðru slíku getur það verið auðveldara. Það kemur til móts við aukið vægi þess að leggja jarðstrengi miðað við þetta heldur en það sem áður var.

Virðulegi forseti. Hér er sem sagt verið að slá það í gadda, eins og einn hv. þingmaður segir stundum, að veita heimild og breyta heimildum fyrir þá sem leggja jarðstrengi. Í þessu tilviki getum við tekið Landsnet sem dæmi. Þeir eru bundnir af lögum um að fara alltaf ódýrustu leiðina. Hér er það útvíkkað. Alþingi er að taka lýðræðislega ákvörðun sem Landsnet getur þá farið eftir, og ber að fara eftir, sem gerir það að verkum að í ákveðnum tilfellum, sem ég hef rakið og í öðrum tilfellum sem eiga að koma eftir til mats varðandi línulagnir, ber þeim að taka tillit til þess sem er verið að samþykkja. Það er gert vegna þess að Landsnet hefur til dæmis alltaf sagt: Það skal ekki standa á okkur að leggja jarðstrengi en við erum bundnir af þeim lögum sem eru í gildi í dag. Segið þið á Alþingi hvernig þetta má vera og hvað má aukast og við framkvæmum það, vegna þess að í mörgum tilfellum kann þetta að hafa í för með sér aukinn kostnað við dreifingu raforku og þá fer það í verð til notenda. Við skulum hafa það í huga og það er líka skrifað í nefndarálitið, aðvörunarorð gagnvart því, Við sem notendur og við sem berum hag allra sem kaupa orku skulum hafa í huga að þetta kann að hafa hækkun í för með sér . Það er allt í lagi vegna þess að í mínum huga er þetta liður í því að ná meiri sátt um hvar raflínur eiga að liggja eða hvort þær eiga að vera í loftlínum eða fara í jörð, sem er auðvitað mikilvægt atriði.

Það atriði sem ég var að ræða er í 9. gr. gildandi raforkulaga, III. kafla, þar sem sagt er að Landsnet skuli alltaf byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Farið hefur vaxandi að raflínur séu lagðar í jörð en almennt eru þær dýrari kostur en loftlínur. Munurinn á kostnaði milli loftlína og jarðstrengja ræðst m.a. af spennu og aðstæðum að öðru leyti. Ljóst þykir að aukinn kostnaður bitnar á notendum raforku hér á landi.“

Þetta skulum við hafa í huga.

Virðulegi forseti. Þetta var það sem ég vildi leggja til málanna. Ég vísa í greinargerð með þingsályktunartillögunni og þau gögn sem þar fylgja með en á bls. 10 er ákaflega merkileg tafla sem við skulum fara aðeins yfir. Þar segir að 220 kílóvolta línur séu 857 kílómetrar á landinu. Það er enginn kílómetri lagður í jarðstrengjum vegna þess að það er það sem er hvað erfiðast að eiga við og hvað dýrast. Í 132 kílóvolta línum eru línur í dag 1.248 kílómetrar en strengir 106 kílómetrar eða 8%. Ef við færum okkur niður í 66 kílóvolta línu eru loftlínur þar um 968 kílómetrar og strengir eru 37 kílómetrar eða einungis 4%. Í 33 kílóvolta línu eru loftlínur 245 kílómetrar en jarðstrengir 359 kílómetrar. Samtals gera þetta 604 kílómetra og hlutfall strengja er þar komið í 60%. Í 6,3–22 kílóvolta línum er hlutfallið orðið 53% og samtals, ef allt er tekið af þessum tæplega 14.500 kílómetrum, eru 43% komnir í strengi. Þetta segir okkur hver ríkjandi stefna hefur verið síðustu ár, að okkur hefur gengið vel í lægra spenntu kerfunum og þar er hlutfallið komið yfir 50%, eða í 33 kílóvoltum og þar fyrir neðan. Það er einmitt það sem þetta fjallar um og hér er talað um megindreifikerfið og svo önnur kerfi, hvernig það muni þróast.

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að mér fyndist þetta ákaflega merkileg þingsályktunartillaga. Með samþykkt hennar stígum við stórt skref fram á við þó svo að ég geri mér auðvitað grein fyrir því að tíminn, næstu eitt, tvö, þrjú árin, mun leiða það í ljós að við þurfum kannski að taka þetta upp og hnýta fastar, vegna þess að það er geysilega ör og mikil og jákvæð og góð framþróun í þessu máli sem við Íslendingar ættum tileinka okkur. Við skulum hafa í huga að það að leggja til og stuðla að því að flutningsfyrirtækin leggi fleiri strengi í jörð, í staðinn fyrir loftlínur, er hluti af aukinni sátt í landinu um það mikilvæga kerfi.