144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[16:08]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svör hans og ég verð að segja að ég er um margt mjög ánægður með áherslur hans í þessu máli. Ég er hins vegar ósammála honum um að við eigum erindi inn í þessar umræður. Ég er ósammála honum um að ferlið hafi verið opið og gagnsætt. Ég vil horfa til þess á heimsvísu og ég vísa núna í yfirlýsingar sem okkur hafa borist frá Brussel, til dæmis frá EPSU, European Public Service Union, frá PSI, Public Service International, með 20 milljón starfsmenn almannaþjónustunnar innan borðs sem mótmæla þessum samningum og þá ekki síst siðleysinu sem í þeim er fólgið, að við, þessi ríki hluti heimsins, 50 ríki, 28 Evrópusambandsríki sem semja ein saman og náttúrlega er ekkert rætt í þjóðþingunum fremur en fyrri daginn, og síðan 22 ríki til viðbótar, þessi ríki krunka sig saman til að fara á bak við hin. Hugmyndin er sú að stilla þeim upp við vegg með gerðum hlut. Svo segir meira að segja í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra frá því í mars í fyrra. Þar segir að vonast sé til að aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gerist aðilar að TiSA-samningnum þegar viðræðum er lokið. Hvers vegna mega þau ekki eiga aðild að þessum samningum? Þær strönduðu 2005 vegna andstöðu fátækra ríkja, ég nefni Indland og Brasilíu, vegna andstöðu frá verkalýðshreyfingunni, frá ýmsum félagasamtökum, 270 félagasamtök birtu yfirlýsingu þar sem varað var við þessum samningum. Það er ástæðan fyrir því að ég tel að við eigum ekki heima við þetta samningaborð, ég tel ósiðlegt að sitja þar.

Við skulum ekki gleyma því að þetta eru óafturkræfar skuldbindingar sem við erum að gera og þær fela það í sér að sundra stofnunum. Það á ekki að einkavæða (Forseti hringir.) tiltekna grunnþætti heilbrigðisþjónustunnar, segir hæstv. ráðherra. En hvað með ræstingarnar á spítölunum? Hvað með stjórnsýsluna á spítölunum? Það verður allt einkavætt eins og gerðist með þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Það er hugsunin, þ.e. að sundra kerfinu og opna alþjóðafjármögnun leið þar inn og það er það sem fátæku ríkin og verkalýðshreyfingin í heiminum andæfa gegn og vilja sporna gegn. Við eigum að standa með þeim. (Forseti hringir.) Þess vegna eigum við að fara út úr þessum viðræðum.