144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og alveg sérstaklega að það sé kannski sameiginlegt verkefni okkar að finna á þessu góða lausn.

Hv. þingmaður talaði um kerfislæga galla. Ber að skilja það svo að kerfislægir gallar séu þá í regluverki Evrópusambandsins sem við erum að taka yfir? Svo talaði hann dálítið mikið um bónusa og annað slíkt. Mér varð nú hugsað til sjómanna sem eru svona nánast eingöngu á bónusum, þeir eru reyndar með einhverja kauptryggingu, hún er svo lág að þeir lenda sjaldan í henni. Vill hv. þingmaður þá leggja til að sjómenn verði bara á daglaunum og fái ekki laun í samræmi við afköst?

Síðan það að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið. Ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að það er ófært kerfi og ætti ekki að vera viðhaft. Þess vegna barðist ég svona mikið gegn Icesave á sínum tíma.