144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi bónusa og afkastahvetjandi kerfi sem auðvitað eru þekkt, það er ekki bara aflahlutur sjómanna, heldur vinna í frystihúsum, uppmæling hjá iðnaðarmönnum o.s.frv. Það er vel þekkt og byggir einfaldlega á því að auðvelt er að afmarka og mæla þær einingar sem ráða þá endurgjaldinu til viðkomandi starfsmanns. En þau rök eiga síðan alls ekkert við í margri annarri starfsemi. Þess vegna finnst mér það ekki góð rök fyrir bónusum í bönkum, það skiptir auðvitað máli að sjómenn séu harðduglegir og harðsnúnir við að taka aflann um borð, gera að honum og ísa hann og koma með að landi, sem og það er auðvitað ágætt að hafa duglegan málara í vinnu sem komast yfir marga fermetra, þ.e. svo lengi sem þeir mála vel.

En almennt er launavinna ekki byggð á slíkum grunni. Ég nefndi mjög víð svið á vinnumarkaði þar sem engum (Forseti hringir.) dettur slíkt í hug, að hafa til dæmis afkastahvetjandi kerfi í kennslu eða (Forseti hringir.) í umönnun á sjúkrahúsum (Forseti hringir.) eða eitthvað slíkt.