144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nákvæmlega. Þess vegna held ég að höfum að því leyti ratað inn á alveg rétt spor 2010 og eigum bara að halda okkur við það að sú starfsemi sé alla vega klárlega undanskilin.

Svo ég svari þessu ítarlegar á þeirri mínútu sem ég hef núna: Já, ég ætla ekkert að fela þá skoðun mína og pólitísku sannfæringu að best væri að þetta væri ekki, að ekki væru neinar árangurstengdar greiðslur þarna inni því að ég tel þær illa eiga heima í þessu umhverfi. Það má færa fyrir því mjög góð rök og reynslan mælir ekki með því.

Næstskást teldi ég að kveðið væri á um að einhvers konar ábata af góðu gengi bankans væri deilt út jafnt á alla starfsmenn. Það sem fer hvað mest í taugarnar á mér er að horfa upp á afgreiðslufólk og venjulegt fólk á gólfinu í bönkunum vera á hálfgerðu skítakaupi á sama tíma og topparnir moka í sig háum launum og bónusum. Það svíður mér. Ég vildi gjarnan sjá að slíkur ávinningur deildist jafnt á alla starfsemi.

Þriðji besti kosturinn væru reglurnar frá 2010 óbreyttar. Það er svona í fjórða sæti að mínu (Forseti hringir.) mati sem hér er lagt til vegna þess að það er því miður þó nokkur rýmkun.