144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni fyrir alveg sérlega upplýsandi ræðu og ekki síst fyrir þá áherslu sem hann lagði á tvennt: Í fyrsta lagi neytendasjónarmiðin og hins vegar mikilvægi þess, með hliðsjón af reynslu umliðinna ára, að hækka eiginfjárhlutfall bankanna. Hugvekja hans um hið næfurþunna eigið fé sem getur leitt til stórkostlegs háska fyrir samfélagið allt var ákaflega tímabær. Hv. þingmaður benti á það sem ég hafði ekki komið auga á, að fram kemur í greinargerð að höfundar frumvarpsins hafa leitað álits Samtaka fjármálafyrirtækja en ekki Neytendasamtakanna. Þess vegna er áhersla hans sem formaður nefndarinnar á neytendasjónarmiðum ákaflega mikilvæg og mætti svo sem, þótt ég ætli ekki að gera það, spyrja hv. þingmann hvaða ályktun hann telur að draga megi af viðhorfi höfunda frumvarpsins einmitt í ljósi þess.

Mig langar til þess að spyrja hann sérstaklega um dæmi til að skýra hvað hann á við þegar hann ræðir um hæfi eigenda, eignarhluta og talar um sýndarhæfi sem birtist í því að það séu einhvers konar, ég hefði kallað það leppa hér í gamla daga, fyrir vanhæfa eigendur. Hann á við eitthvað með því, hafi ég skilið hann rétt. Hann er að tala um að það þurfi skýrari reglur til þess að útiloka slíkt, að vanhæfir eigendur í reynd fari með eignarhlut. Þess vegna er hann að tala um hið virka eftirlit með hæfi þeirra.

Mig langar til að taka upp spurningu sem kom fram fyrr í dag. Telur hann ekki miðað við það hversu sterkir íslensku bankarnir eru núna að hugsanlega sé mikilvægt að láta þá þegar taka til óspilltra mála við að skilgreina hluta af sínu eigin fé (Forseti hringir.) sem einhverja af þessum fimm eiginfjáraukum? Ég reyndar skil þetta frumvarp (Forseti hringir.) svo að það séu engin efri mörk á það. Ég hef skilið það þannig að það séu de facto engin efri (Forseti hringir.) mörk þar á.