144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:51]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það orki mjög tvímælis, svo ekki sé meira sagt, ef stjórnarmenn í til dæmis fjármálafyrirtækjum, sem þurfa að uppfylla miklar kröfur og sýna fram á mikið hæfi, þurfa einnig að glíma við að setja fyrirtækjum kaupaukakerfi sem á í leiðinni við um þá sjálfa. Það er eiginlega ekki gott og ekki heldur gott fyrir þá sem starfa hjá innri eftirlitseiningum við áhættustýringu, við að sjá til þess að sem skynsamlegust og minnst áhætta sé tekin, ekki meiri en nauðsynleg er. Það þekkja allir að því meiri áhætta sem er tekin því meira geta starfsmenn borið úr býtum, þótt þeir þurfi ekki persónulega að glíma við afleiðingarnar þegar illa fer. Það er því alltaf mjög ógætilegt að setja slík kaupaukakerfi í gang. Ég held að það sé sérstaklega þannig með kerfislega mikilvæg fyrirtæki. Ég tek undir það sem hv. þingmaður var að ræða með neytendurna. Mönnum hefur oft yfirsést hættan sem þar liggur.