144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er ekki alveg sammála því vegna þess að þeir sem vinna eftirvinnu, næturvinnu eða kvöldvinnu, sérstaklega milli kl. 7 og 8, þar sem er fjórfalt dagvinnukaup, geta séð það sem bónus þó að það heiti ekki bónus.

Ég held að vandinn sé, og við höfum oft rætt það í efnahags- og viðskiptanefnd, mjög oft, neytendavernd á fjármálamarkaði. Ef ég kaupi gallaða peysu þá hringi ég í Neytendasamtökin og málið er leyst, gallaða þvottavél eða eitthvað slíkt, en ef ég tapa 5 eða 10 milljónum af því að nota spariféð mitt, samkvæmt ráðleggingu, í að kaupa hlutabréf sem tapast í kjölfarið, einhverjum mánuðum seinna, þá virðist engin neytendavernd vera til staðar. Þetta sjáum við allt of oft. Ég legg til að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki á honum stóra sínum og komi neytendavernd á á fjármálamarkaði, almennilegri, þannig að svona hlutir komi ekki fyrir aftur. Ég hef nefnilega grun um að þeir hafi gerst.

Hv. þingmaður talaði líka um ríkisábyrgð á innstæðum sem fælist í yfirlýsingu ráðamanna. Ég er dálítill formúlisti í þessu og horfi á stjórnarskrána sem segir að ekki megi greiða fé úr ríkissjóði nema fyrir liggi heimild í fjárlögum eða í fjáraukalögum — ekki einu sinni í lögum, það þurfa að vera fjárlög eða fjáraukalög. Þetta segir stjórnarskráin. Hún er jú undirstaða alls og við höfum svarið eið að henni, allir hv. þingmenn. Ég lít þannig á að meðan ekki er búið að tala um þessa ábyrgð sem ábyrgð í fjárlögum eða fjáraukalögum þá sé ekki ríkisábyrgð á því. Það getur verið að það sé ábyrgð þessara viðkomandi einstaklinga, sjá hvað eignir þeirra duga langt til að borga tap á innstæðum, en það er ekki ríkisábyrgð á því.