144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér hafa talað margir vísir menn á undan mér og farið yfir margt. Til dæmis tók hv. þingmaður stjórnskipunarþáttinn sem ég hefði gjarnan viljað eyða heilli ræðu í að fjalla um. Ég kaus einfaldlega að fara í þetta mál í ræðu minni til sýna fram á að mjög mikilvægt er saumfara þetta frumvarp. Hinn góði vilji er algerlega ljós og ég tel að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé mjög á réttri leið varðandi eiginfjáraukann. Ég er sammála honum, alveg eins og mér heyrðist hv. þingmaður vera í dag, að því ákvæði frumvarpsins væri sennilega mikilvægt að ná fram hið fyrsta, einmitt vegna þess, eins og við erum sammála um, að nú er staðan til að notfæra sér hinar fimm gerðir eiginfjárauka til að styrkja bankana, bæði gagnvart hugsanlegum háska í framtíð en líka til að auka lánshæfi þeirra og þar með lánshæfi Íslands og orðspor út á við. Þetta finnst mér skipta máli.

Ég er viss um að hv. þingmaður tók eftir því að ég fór ekkert í það sem er í felulitum, komið með fram og kallað breytileg starfskjör, orð sem ég hafði í sjálfu sér aldrei séð fyrr en ég sá þau í frumvarpinu þegar það kom fram í fyrra og við köllum bara bankabónusa. Aðrir fjölluðu mjög um það en ég er hins vegar algerlega sammála hv. þingmanni í afstöðu hans að það er ein af uppáfyndingum djöfulsins. Ég hóf ræðu mína þegar ég hygg að hv. þingmaður hafi verið fjarstaddur með því að segja að niðurstaða umræðunnar — og ég tiltók t.d. hv. þingmann og Frosta Sigurjónsson, hv. formann efnahags- og skattanefndar, í því efni — væri að hinn eitraði kokteill er næfurþunnt eigið fé og óhóflegir kaupaukar. Það er þetta sem má segja að saman hafi gert það að verkum að bankarnir reyndust vera eins og fiskihrip þegar (Forseti hringir.) byljirnir blésu. Þess vegna er ég honum alveg sammála, ég held að öllu leyti, varðandi afstöðu hans gagnvart kaupaukunum.