144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

innheimtuaðgerðir LÍN.

[15:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú berast fréttir af því að Lánasjóður íslenskra námsmanna sé að breyta í grundvallaratriðum aðferðum sem notaðar eru til innheimtu námslána, sé að fara í besta falli á svig við lög samþykkt á Alþingi um ábyrgðarmenn og sé að búa til nýjar leiðir til að halda opnum ábyrgðum á fólk sem er algjörlega grandalaust langt aftur í tímann. Núna síðast í hádeginu heyrðust fréttir af því að 8 þús. manns hefðu fengið viðvörunarbréf frá sjóðnum. Þetta er fullkomlega óásættanlegt, og nauðsynlegt að hæstv. menntamálaráðherra sé hér til svara. Hann var ekki í fyrirspurnatíma á mánudag og hann er ekki boðaður í fyrirspurnatíma á morgun. Ég vil beina því til hæstv. forseta og óska eftir því að hann geri reka að því að hæstv. menntamálaráðherra verði til svara á morgun. Ég vil jafnframt koma því hér með á framfæri við forseta að ég óska eftir sérstakri umræðu um þetta mál við fyrstu hentugleika.