144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:58]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna og þá ekki síst ábendingar hans og vangaveltur sem snúa að kaupaukakerfum í fjármálakerfinu, kostum þeirra og ókostum. Þetta frumvarp snýr fyrst og fremst að regluverkinu sem umlykur eða kemur til með að umlykja fjármálastofnanir en við höfum líka verið að ræða þessi mál í víðara samhengi, um fjármálaumhverfið almennt. Inn í þá umræðu hefur fléttast spurningin um eignarhald á fjármálastofnunum. Ég hreyfði þessu bæði í ræðu í gær og í andsvörum við tiltekinn þingmann Sjálfstæðisflokksins sem fannst þessi spurning vera svo út í hött að hann þyrfti ekki að svara henni. Ég held að þeir sem horfa raunsætt á afleiðingar bankahrunsins, sögulegan aðdraganda og síðan það sem fylgdi hruninu, séu ekki tilbúnir að skella skollaeyrum við slíku.

Nú spyr ég hv. þm. Helga Hjörvar: Hver er afstaða hans til eignarhalds á bönkum? Er hann sammála því viðhorfi sem hefur verið ríkjandi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að það sé mikilvægt að halda að minnsta kosti einum banka í ríkiseign, í almannaeign? Við höfum náttúrlega horft þar til Landsbankans. Hver er afstaða hv. þingmanns til þessa?