144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[14:05]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að flest það sem um var spurt hafi komið fram í ræðu minni. Ég ætla einungis að segja að þetta frumvarp sem hér er til umræðu er til þess fallið að auka á fjárfestingarheimildir í þessum óskráðu verðbréfum úr 20 í 25%. Það er nú þegar fyrir hendi (Gripið fram í.) 20% heimild og hægt að fjárfesta innan þeirrar heimildar í þeim verðbréfum sem eru í viðskiptum á markaðstorgi fjármálagerninga. Ég tel að sú heimild sé yfrið nóg og ef til vill of há. Ef mig rekur minni rétt þá var sú heimild aukin úr 10 í 20% fyrir nokkrum árum og þar að auki hefur verið framlengt ákvæði til að lífeyrissjóðir geti slegið saman í fjárfestingu þar sem lífeyrissjóðirnir reyndu að taka út úr bönkunum fyrirtæki sem lentu í örmum bankanna. Ég tel því að lífeyrissjóðirnir hafi þá heimild og ég tel að þetta auki heldur á áhættu lífeyrissjóðanna. Ég tel í grundvallaratriðum það eitt að lífeyrissjóðirnir eigi helst að fá auknar heimildir til að fjárfesta í útlöndum til að dreifa sinni áhættu.

Mig rekur minni til þess að ég átti einu sinni viðskipti við lífeyrissjóð og sjóðfélagar í þeim sjóði vildu síðast af öllu kaupa hlutabréf í því fyrirtæki sem þeir unnu fyrir þannig að það var þeirra einfalda áhættudreifing. Ég held að við þurfum að huga að því og jafnvel krefjast þess að lífeyrissjóðirnir eigi meira af eignum sínum utan lands og að þeir séu ekki notaðir til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum svona eftir geðþótta og áhuga einstakra stjórnarmanna. Ég hef lokið máli mínu.