144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

afgreiðsla atvinnuveganefndar á rammaáætlun.

[13:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Framkvæmdarvaldið hefur lagt fyrir Alþingi sína túlkun á gildi ályktana Alþingis, fjallar oft um það í fjölmiðlum og fer fram sínum vilja í krafti þeirrar túlkunar. Þegar það álit kom fram og var lagt fyrir Alþingi kallaði hæstv. forseti Alþingis eftir lögfræðilegri samantekt frá skrifstofu Alþingis um að greina þá túlkun. En þær tvær túlkanir stangast á. Forseti Alþingis, eins og ég segi, kallaði eftir þessari lögfræðilegu samantekt og fékk fyrir rúmu ári, en enn þá er samt óvíst hverju í þeirri samantekt forseti Alþingis er sammála og hverju hann er ósammála, ef einhverju.

Nú er það ekki hlutverk forseta Alþingis og forsætisnefndar að gefa þingmönnum og þjóð formlega túlkun sína á gildi ályktana þjóðkjörins þings þegar túlkun skrifstofu Alþingis stangast á við þá túlkun sem framkvæmdarvaldið hefur lagt fyrir Alþingi og starfar opinberlega eftir, túlkun sem gengur gegn þeim hefðum og þeirri sátt sem ríkt hefur um þingsályktanir frá lýðveldisstofnun, (Forseti hringir.) túlkun sem breytir framkvæmd hefðbundinnar stjórnskipunar í landinu á þann veg að framkvæmdarvaldið styrkist á kostnað Alþingis.