144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[19:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það má velta því fyrir sér hvort maður eigi að byrja í Shakespeare eða nóbelsskáldinu, að vera eða vera ekki, það er efinn, eða hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann, að vera eða vera ekki umsóknarríki.

Hvað þýðir bréfið? Orðalagið sem notað hefur verið og tilraunir til að útskýra það hafa verið býsna skrautlegar. Það hefur verið talað um að málið væri núllstillt, menn væru komnir aftur á byrjunarreit. Hæstv. forsætisráðherra sagði: Umsóknin er ekki afturkölluð, hún er sokkin. Hann líkti því við skip á skeri sem væri svo tosað af strandstað og sykki og þar fram eftir götunum. Svona tekst til þegar menn orða hugsun sína ekki sæmilega skýrt, annaðhvort af því að þeim auðnast það ekki eða af því þeir vilja það ekki, af því að það er markmið í sjálfu sér að hafa orðalagið það þokukennt að menn ímyndi sér að þeir geti túlkað það á einn veginn hér en haft það á annan veginn þar. Það er erfitt að skilja hvers vegna orðalag bréfsins margrædda er jafn þokukennt og óljóst og raun ber vitni nema það hafi einmitt verið tilgangurinn, verið sé að reyna að gera það sem alltaf hefur reynst erfitt, þ.e. bæði að sleppa og halda. Það er nákvæmlega það sem virðist vera að verða niðurstaðan af umfjöllun um þetta á þingi í gær og í dag og umræðum helgarinnar. Þar munar náttúrlega miklu um í fyrsta lagi yfirlýsingu forseta Alþingis í góðri ræðu í gær þar sem hann taldi að með þessu væri ekki gengið gegn þingræðisvenjunni vegna þess að innihald bréfsins væru engin þau tíðindi að það skaraðist við þá yfirlýstu stefnu Alþingis sem enn er í gildi og ekki hefur verið felld úr gildi og samþykkt var hér með ályktun 2009. Niðurstaða formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgis Ármannssonar, er í reynd hin sama, að ekki sé um að ræða brot á samráðsskyldunni við utanríkismálanefnd af því að það séu engin þau tíðindi á ferðinni í bréfinu.

Þá eru auðvitað ekki innstæður fyrir kynningunni, sem greinilega var vel undirbúin, á fimmtudagskvöldið var um að hér væru stórtíðindi á ferð, verið væri að slíta aðildarviðræðunum og umsóknin afturkölluð og við værum ekki lengur umsóknarríki. Ekkert slíkt er að finna í bréfinu. Þvert á móti má leiða af orðalagi til dæmis í þeirri málsgrein þar sem talað er um að ríkisstjórn Íslands óski því eftir að skýra nánar fyrirætlanir sínar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Íslands hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju.“ — Að halda þeim áfram.

Þarna er ekki verið að tala um að slíta neinu. Nei. Skírskotað er til afstöðu ríkisstjórnar Íslands. Það er afstaða ríkisstjórnar Íslands að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki. Afstöðu hennar er lýst. En það er ekki sagt: Ísland óskar þar með ekki eftir því að vera umsóknarríki og afturkallar umsókn sína, slítur viðræðunum. Ekkert slíkt orðalag er að finna í bréfinu, sem hefði auðvitað þurft að vera ef hefði átt að vera innstæður fyrir því að stór tímamót væru á ferð.

Ef maður horfir á málið í því samhengi að hér eru utanríkisstefna Íslands og samskipti Íslands við önnur ríki á ferð dugir þetta náttúrlega ekki. Það er ekki hægt að gefa svona framgöngu þeirra stjórnvalda á Íslandi sem fara með mótun og forsvar utanríkisstefnunnar út á við annað en falleinkunn, að það þurfi rithandarsérfræðinga og málfræðinga fremur en lögfræðinga til að reyna að ráða í hvað verið er að reyna að segja þarna. Evrópusambandið klórar sér bara í hausnum og biðst undan því að svara nokkru til um hvernig þeir líta á þetta bréf, a.m.k. að svo stöddu, eðlilega. Þeim er nokkur vandi á höndum.

Það hefur komið fram, eða því verið haldið fram, að um þetta hafi verið haft samráð við Evrópusambandið, sem er auðvitað mjög athyglisvert, en ekki við þingið eða þjóðina. Hvað er líklegt að þeir hafi sagt hjá Evrópusambandinu ef það hefur í reynd verið þannig að ráðamenn Íslands hafi farið til Brussel eða verið í samskiptum við þá og sagt: Heyrðu, getum við ekki fundið einhvern veginn út úr því saman hvernig við getum haft þetta mál? Er ekki líklegt að Evrópusambandið hafi sagt: Bíddu, viljið þið ekki koma því á hreint, Íslendingar, hvað þið ætlið að gera? Er það ekki ykkar að koma því á hreint hjá ykkur? Þið látið okkur svo bara vita. Ætlið þið að slíta viðræðunum? Ætlið þið að afturkalla umsóknina? Eða hvernig viljið þið hafa þetta? Það þykir mér langlíklegast.

Mér þykir afar ólíklegt að Evrópusambandið hafi talið við hæfi eða hafi látið hafa sig út í að fara í einhvers konar plott með hæstv. utanríkisráðherra um það hvernig hægt væri að búa þannig um þetta að hann gæti sagt heima: Ég er búinn að standa við mitt, ég er hetja, ég er búinn að slíta viðræðunum, en þið getið svo haft þetta eins og þið viljið úti hjá ykkur. Er líklegt að Evrópusambandið hefði látið hafa sig út í það? Ég held ekki. Þannig að hér er eitthvað stórkostlega málum blandið. Það alvarlega er auðvitað að þetta setur, að mínu mati, afar dapurlegan svip á það hvernig utanríkisstefna okkar á að vera mótuð af yfirvegun og vel ígrundað það sem gert er í hinum stærri málum á því sviði.

Niðurstaðan er sem sagt sú að við höfum eytt dögum í að reyna að komast til botns í því hvað þetta bréf þýðir og hvað það þýðir í samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Hefði verið í þeim þau tíðindi sem aðstandendur bréfsins reyndu sjálfir að segja á fimmtudagskvöldið var að væru hefði það verið stóralvarlegur atburður í samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, en kannski er þetta léttvægara en ella vegna þess hvernig bréfið er. Það alvarlega er ýmis ummæli og túlkanir sem hafa komið fram varðandi stjórnskipun landsins og það að þingræðið og þingvenjan skipti engu máli.

Menn hafa gengið ótrúlega langt í því hér að segja að framkvæmdarvaldið hafi fullt sjálfdæmi um það hvernig það hegðar sér svo lengi sem það er ekki stoppað af með vantrausti, að menn hafi fengið allt valdið til sín, framselt það á einu bretti og skuldi engum neinar skýringar á því hvernig þeir fara með það svo lengi sem Alþingi taki ekki af þeim völdin með því að fella þá. Þetta er ekki minn skilningur á þingræði og þingvenju. Og lögfræðilega greinargerðin sem skrifstofa Alþingis tók saman er ágætisgagn um þetta, og ég vitnaði til í umræðum í gær. Þar er komist að algerlega andstæðum niðurstöðum þeim sem hæstv. utanríkisráðherra og fleiri hafa reynt að segja í dag. Þar er einmitt mjög áréttað að þingið hefur styrkt stöðu sína og gerir nú ríkari kröfur til þess að framkvæmdarvaldið taki samþykktir þess alvarlega, framfylgi þeim eða leiti til þingsins ella um að breyta þeim, fá nýtt umboð, geri þinginu grein fyrir því fyrir fram ef ekki stendur til að fara að þeim samþykktum sem Alþingi hefur gert.

Ályktun Alþingis frá júlí 2009 er að sjálfsögðu í fullu gildi vegna þess að hún hefur ekki verið felld úr gildi. Það er ekki flóknara en það. Þangað til henni er breytt með nýrri samþykkt Alþingis er hún í gildi. Þannig hefur það alltaf verið. Þegar menn samþykktu árið 1999 ályktun um að hefja skyldi hvalveiðar settu menn inn í þá samþykkt að það skyldi gert þrátt fyrir ályktun Alþingis 1982, sem sagt sjö ára gömul samþykkt Alþingis var upphafin með nýrri ákvörðun, nýrri stefnumótun. Þannig hefur þetta alltaf verið.

Herra forseti. Tíminn er fljótur að hlaupa. Það hefur verið dálítið athyglisvert að fylgjast með þessari umræðu í dag á köflum og í gær fyrir mig sem andstæðing þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. [Hlátur í þingsal.] Það er kannski rétt að taka fram að nú hlær utanríkisráðherra. (Utanrrh.: Já.) Hann má alveg gera það. Hæstv. utanríkisráðherra má hlæja alveg eins og hann lífsins mögulega getur. Ég hef einmitt verið að velta því fyrir mér þegar hæstv. utanríkisráðherra talar, þegar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason talar og fleiri slíkir menn, sem gera það alveg sérstaklega að erindi sínu í ræðustólinn að ráðast á t.d. undirritaðan, hvort það angri þetta fólk að ég skuli vera andstæðingur þess að við göngum í Evrópusambandið? Eiga þeir eitthvað erfitt með þá tilveru? Sjá þeir ástæðu til þess að eyða eiginlega öllu púðri sínu í að ráðast á þann sem hér talar? Svo virðist vera. Það er umhugsunarefni.

Ekki er það mikið umburðarlyndi gagnvart því að menn kunna að hafa sínar skoðanir á því hvernig málsmeðferðin í þessum efnum eigi að vera og þar á meðal áskilja sér rétt til að taka upp hanskann fyrir Alþingi þegar það er forsmáð, óháð afstöðu manna til þess hvort Ísland eigi að vera aðili að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) eða ekki.

Herra forseti. Að lokum vil ég svo segja að það er nokkuð (Forseti hringir.) síðan það rann endanlega upp fyrir mér að íslensk stjórnmál eru þannig á vegi stödd að við munum (Forseti hringir.) hvergi komast í þessum málum, hvorki afturábak né áfram, nema leita til þjóðarinnar um ráðgjöf í þeim efnum. Íslensk stjórnvöld (Forseti hringir.) ráða ekki við það án þess að marka stefnuna í þessu máli.