144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég má bæta aðeins við vangaveltur hv. þingmanns er það þannig að þessi umræða hefst, þ.e. þetta bréf kemur upp og menn fara hér í hortugheitum í tilsvör um að ekki þurfi að spyrja þingið að hinu eða þessu, menn geti gert það sem þeir vilja því að meiri hlutinn ráði, réttara sagt ætlaður meiri hluti. Það voru ekki greidd um það atkvæði í þingsalnum heldur áætluðu menn það. Þá bætist við það sem gerðist hér í morgun og er umgengni þessara sömu aðila gagnvart lögum sem voru samþykkt héðan frá Alþingi og það er umgengni um rammann. Umgengnin um rammaáætlun endurspeglar og sýnir svo vel á spilin, hvernig menn ætla að vinna og hversu langt menn eru tilbúnir að ganga þegar þeir vilja eitthvað eða þurfa eitthvað og þurfa að koma einhverju í gegn.

Þetta segi ég vegna þess að lögin um rammaáætlun snúast um að menn eru búnir að búa sér til skapalón í þinginu um það hvernig ákvarðanir eiga að vera teknar um tiltekin mál. Þetta gerum við í fjölmörgu öðru. Það er til dæmis verið að vinna að stóru slíku máli í fjárlaganefnd, lögum um opinber fjármál, sem eru líka skapalón um það hvernig menn ætla að sinna þeim málum. Þarna er verið að sýna okkur á spilin með það að ef þeir eru á annarri skoðun en ferlið leiðir í ljós er lögunum ýtt til hliðar skammlaust. Það er eitthvað sem ég hef verulegar áhyggjur af og tel að muni grafa undan og það er byrjað að grafa undan þeirri stofnun sem við stöndum í hér. Þegar við erum komin á þann punkt þurfum við að fara að endurhugsa málin, eins og hv. þingmaður talar um. Þá þurfum við að finna nýjar leiðir til að taka ákvarðanir og taka þá ákvarðanir (Forseti hringir.) á gagnsæjan og lýðræðislegan hátt.