144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi vinnustaður byggir á hefðum og óskráðum reglum og skráðum reglum. Staða allra sem hér starfa inni byggir á því að menn virði það með gagnkvæmum hætti. Þess vegna er það svo alvarlegt þegar nýr utanríkisráðherra brýtur þá hefð sem verið hefur frá því fyrir stofnun lýðveldisins um það hvernig utanríkisráðherra virðir samþykktir Alþingis vegna þess að hann hefur brotið reglur. Þá vakna spurningarnar: Eru þá engar reglur lengur í gildi? Er þá bara allt leyfilegt? Það er ekki staða sem neinn í þessum sal vill vera í. Því er það svo brýnt að við ræðum þetta mál vel og vandlega og komumst aftur að sameiginlegri niðurstöðu um hvaða reglur eru í gildi, vegna þess að þar til Gunnar Bragi Sveinsson komst að þeirri niðurstöðu að skrifa þetta bréf vorum við búin að vera í ein 75 ár sammála um hver reglan væri. Nú, þegar hann hefur spillt því, þurfum við að ná aftur saman um það að reglurnar gildi. Þess vegna færi best á því að hann dragi bréfið strax til baka enda skilur viðtakandinn ekki bréfið, ekki frekar en sendandinn.