144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég er eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson alveg til í langa og stranga umræðu um Evrópusambandið hér einu sinni enn við hann. En það gengur svo sem alltaf út á það sama, einhver ofuryrði úr hans munni.

En ég ætlaði nú ekki að ræða það heldur vil ég segja að það er náttúrlega alveg ljóst að ef formenn þingflokka í stjórnarandstöðunni hafa boðið það að hér yrði takmarkaður tími í fyrri umr., sem ég vissi svo sem ekki um, gerir það forseta einfaldlega auðveldara fyrir að setja málið á dagskrá fyrir páska þannig að það þurfi ekki að tefja eitt eða neitt. En ég hefði haldið og nefni nú aftur það sem ég hef lært af störfum þingsins og hvernig það starfar að þetta væri einmitt það að rétta fram sáttarhönd og sýna samráðs- eða samstarfsvilja. En þá kemur náttúrlega hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og kemur mér svo sem ekkert á óvart og reynir að snúa út úr því og gera úr því hið versta mál, sem það er ekki (Gripið fram í.) heldur tillaga til samráðs.