144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[14:09]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti áréttar enn og aftur að það er alls ekki ætlun hans að koma í veg fyrir að þetta umrædda mál komist á dagskrá, öðru nær. Forseti boðaði strax að séð yrði til þess að það yrði fyrsta mál á þingfundardegi utan fyrirspurnadags strax bak páskum. Með því vildi forseti undirstrika að hér væri um að ræða mikilvægt mál sem borið var fram af formönnum allra flokka og vildi undirstrika það með orðum sínum í þá veru að það væri ákvörðun hans og séð yrði til þess að málið kæmist á dagskrá sem fyrsta mál á þriðjudeginum strax eftir páska.

Með þessu er forseti síst af öllu að gera lítið úr málatilbúnaði formanna stjórnarandstöðuflokkanna, þvert á móti áréttar forseti þá skoðun sína að vitaskuld hefur mál sem borið er fram af formönnum allra stjórnarandstöðuflokkanna meiri vigt en almenn þingmannamál og er forseti þó með þeim orðum síst af öllu að tala niður til þeirra mála sem eiga líka mikið tilkall til þess að komast á dagskrá og forseti hefur reynt að leggja sig fram um að svo verði.