144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[15:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta brýna mál á dagskrá. Mig langar að stikla á stóru en samt beina athygli minni að einu sem þarna er inni og varðar matarsóun. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað, það er mjög athyglivert að komast að því að við njótum ekki hér styrkingar krónunnar og það að þessi markaðsráðandi öfl sem skila hundruðum milljóna í arðgreiðslur og afgang til eigenda sinna, þ.e. þessi stóru, sjái sér ekki hag í að lækka til okkar matvöruverðið. Auðvitað megum við heldur ekki gleyma því að ríkisstjórnarflokkarnir hækkuðu virðisaukaskatt.

Mig langaði til að koma aðeins inn á það sem hér er sagt um matarsóunina. Ég tel mjög brýnt að við komumst að niðurstöðu varðandi skilarétt dagvöruverslunarinnar á ferskum vörum, sérstaklega kjötvörum, eins og bent er á í skýrslunni. Það er óásættanlegt að vörum sem renna út á síðasta söludegi sé skilað, jafnvel fleygt og þær ekki nýttar til handa þeim sem þurfa á að halda. Veitingahús, eða aðrir, gætu hugsanlega nýtt þær en þessi mikla sóun leiðir til þess að við erum að borga miklu hærra verð fyrir vöruna.

Það er vissulega kominn af stað hópur hjá umhverfis- og auðlindaráðherra sem á að vinna með þetta, en það væri líka áhugavert að vita afstöðu ráðherra til þessara hluta. Hér talar Samkeppniseftirlitið á síðustu blaðsíðunni í skýrslunni um að endurskoða samning um skilarétt þannig að hvatar dagvöruverslunarinnar (Forseti hringir.) til að koma vörum út verði styrktir. Hvað finnst ráðherra um það annars vegar og hins vegar það að veita undanþágur frá 15. gr. samkeppnislaga?