144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[15:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ítreka þakkir mínar til málshefjanda fyrir þessa umræðu sem hefur verið mjög góð og upplýsandi. Ég vil líka geta þess að skýrsla Samkeppniseftirlitsins sem er grunnurinn að umræðunni er mikilvægt gagn. Það er mjög mikilvægt að umræðan um hvernig við getum aukið samkeppni, bætt hag neytenda sem og hag verslunarinnar sem ég tel klárlega samverkandi þátt, bætt þessa umræðu og leitt til úrbóta á þessu sviði verður alltaf best þegar hún er tekin á grunni góðra upplýsinga og þessi skýrsla er innlegg í hana.

Það eru nokkur atriði. Hv. þingmaður spurði hvort mér fyndist skýrslan hafa gefið til kynna að verslunin hefði brugðist hlutverki sínu. Nei, ég tel ekki svo vera. En ég sagði áðan í ræðu minni að ég tel að verslunin og stjórnvöld eigi að taka höndum saman og upplýsa hvert mismunurinn hefur farið. Ef hann skilar sér ekki til neytenda þurfum við að upplýsa það.

Ég er spurð hvort ég ætli að efla úrræði Samkeppniseftirlitsins og beita mér fyrir auknum fjárheimildum. Það er rangt sem fram kom í máli hv. þm. Helga Hjörvars, að fjárheimildir til Samkeppniseftirlitsins hafi verið skornar niður í miklum mæli. Þetta er þvert á móti ein af fáum stofnunum sem undir mig heyra sem hefur fengið auknar heimildir á síðustu árum.

Í síðasta lagi, um hvort ég hyggist beita mér fyrir breytingu á lögum varðandi markaðsráðandi stöðu og annað, vil ég bara vísa til þess að við erum með nákvæmlega sambærilega löggjöf og annars staðar þannig að ég er ekki viss um að það sé við löggjöfina að sakast heldur þurfum við að skoða þetta samspil.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um matarsóunina og finnst forvitnilegt að skoða það. Síðan vil ég líka nefna eitt að lokum, (Forseti hringir.) það verður spennandi að fylgjast með þróuninni ef það fer þannig (Forseti hringir.) að stórir, erlendir, nýir aðilar koma inn á þennan markað. Það er mikilvægt og verður fróðlegt að sjá (Forseti hringir.) hvaða áhrif það mun hafa á bæði vöruúrval og samkeppni í þessari grein.