144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ræðumanni fyrir skelegga ræðu. Ég kem hér upp í andsvar því að ég veit að hann hefur öðrum fremur mikla þekkingu á þessum málaflokki. Það vekur athygli að í greinargerð með frumvarpinu er talað um að breytingarnar eigi að tryggja að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands. Þá fer maður auðvitað að velta fyrir sér: Hefur verið pottur brotinn hvað þetta varðar hingað til? Eru dæmi um að Þróunarsamvinnustofnun hafi ekki unnið í takt við utanríkisstefnu Íslands? Mér þætti fróðlegt að heyra hvað hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur um það að segja.

Eina dæmið sem ég veit um þar sem eitthvert embætti hefur ekki verið í takt við utanríkisstefnu Íslands er forseti Íslands, sem á fyrra kjörtímabili fór sínar leiðir á meðan ríkisstjórnin fór kannski aðrar leiðir. Eigum við þá að innlima forsetaembættið í utanríkisráðuneytið? Það er spurning.

Mér finnst merkilegt í þessu máli að það er eins og Þróunarsamvinnustofnun sé hin frábærasta stofnun, allar úttektir sýna það. Þar er vel farið með fé og maður vildi að svo væri með allar stofnanir. En hvers vegna ættum við þá að taka þá stofnun og setja hana í einhverja óvissu? Ættum við ekki að einbeita okkur að öðrum stofnunum en akkúrat henni? Ef allt gengur vel, til hvers erum við þá eiginlega að þessu?

Mig langar sérstaklega að spyrja hv. þingmann út í það sem ég hnýt hér um varðandi öll samskipti við erlend ríki og stofnanir, að það eigi að tryggja að þau séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands. Þetta væri ekki í greinargerðinni ef það væri ekki talið einhvers konar vandamál, vænti ég.