144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er eðli allra eininga stjórnsýslunnar, allra ráðuneyta, að reyna að safna að sé auknu valdi. Það finnum við öll sem höfum verið ráðherrar og gildir einu hvort ráðuneytið er lítið eða stórt. Ég þori ekki að fullyrða það en elstu þreifingarnar sem ég man eftir voru í ríkisstjórn sem ég sat í sem umhverfisráðherra, þ.e. á bilinu 1993–1995. Það eru fyrstu þreifingarnar sem ég varð var við.

Síðan hafa verið gerðar nokkrar skýrslur sem hafa það allar sammerkt fram undir 2008 að hafa verið gerðar af embættismönnum úr ráðuneytinu og margar þeirra, ég held allar, hafa hnigið að því að auðvitað væri mjög sniðugt að taka þennan málaflokk og flytja hann inn í ráðuneytið. Það kom tillaga um það til Davíðs Oddssonar þegar hann var utanríkisráðherra. Hann lét skoða málið, komst að þveröfugri niðurstöðu og taldi réttast að flytja frekar fjölhliða samvinnuna yfir til Þróunarsamvinnustofnunar. Ég var heldur á því sjálfur, mér fannst það rökréttara og betra en hitt, skellti skollaeyrum við þessu og það var ekki rætt neitt sérstaklega mikið við mig.

Valgerður Sverrisdóttir kom á sínum tíma hér inn í þing með þingmál sem var mjög svipað og lagði fyrir þingið. Ég tek eftir því að í greinargerðinni eða í skýrslu Þóris Guðmundssonar segir að málið hafi dagað uppi. Það dagaði ekkert uppi. Það var bara ekki meiri hluti fyrir því í utanríkismálanefnd, það var svo einfalt mál. Þess vegna hvarf það út úr sögunni. Og nú reynir hæstv. ráðherra þetta og hefur engin sérstök rök fyrir því, þetta eru „af því bara“-rök.

Núna er þetta öðruvísi. Sá sem er fenginn til að gera skýrsluna kemur utan frá en hann er ekki algjörlega hlutlaus. Það hefði verið betra að það hefði alla vega líka komið sjónarhorn einhvers annars en til dæmis starfsmanns Rauða krossins, sem er góð og merk stofnun en hluti af þróunarverkefnum (Forseti hringir.) hennar eru fjármagnaðar af ráðuneytinu og það er ekki þægileg staða. Það er sjálfsagt að fá sjónarhornið en það hefði þurft annað líka.