144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Svona í framhjáhlaupi, af því að hann talaði um yfirsýn yfir fjármunina og því um líkt, er ÞSSÍ sérstakur fjárlagaliður og verður það þá ekki lengur heldur fellur inn í ráðuneytið.

Mig langar til að varpa fram spurningum af því að þingmanninum varð tíðrætt um stefnuna og sýnina í þróunarsamvinnumálum. Þróunarsamvinnustofnun telur sjálf að þessar miklu breytingar á skipulaginu og framkvæmdinni á þróunarsamvinnunni séu ótímabærar, eins og okkur hér þykir líka. Eins og farið var yfir erum við sem þing búin að staðfesta þetta. Það er viðurkennt af DAC, eins og kom fram hjá þingmanninum. Getur verið að við stöndum frammi fyrir því í þessu öllu saman að við förum aftur á byrjunarreit, að stefnumörkunin í þessum málaflokki fari aftur á byrjunarreit af því að við höfum ekki tækifæri til að draga lærdóm af því starfi sem unnið hefur verið? DAC ætlaði að skila úttekt 2016 og stjórnarandstaðan hefur beðið um úttekt Ríkisendurskoðunar. Áætlunin hefur ekki náð fram að ganga og þar af leiðandi spyr ég þingmanninn hvort hann telji svo vera og einnig hvort hann telji að þetta skipulag auki líkurnar á því að Ísland sem þjóð nái fram þeim hugmyndum og skilgreindu markmiðum sem við höfum sett okkur nú þegar.