144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér fannst hv. þingmaður velta því svolítið fyrir sér hvernig þessi tillöguflutningur kæmi til. Ég hef nú mínar prívatskoðanir á því og kannski væri gaman að heyra skoðun hv. þingmannsins út frá þeim, en ég er á því að hæstv. ráðherra hafi kannski vantað vini innan ráðuneytisins. Hann stendur í alls konar stórræðum sem ég er ekki alveg viss um að allir embættismennirnir þar séu par hrifnir af án þess að ég viti nokkuð um það annað en mitt hugboð.

Ég held hins vegar að það sé alveg ljóst að það eru embættismenn í ráðuneytinu sem vilja ábyggilega gjarnan færa stofnunina þarna inn og mér fannst sú frásögn sem hér hefur verið höfð yfir fyrr í dag styðja það, að þegar átti að færa þessa starfsemi alla einhvern tíma yfir í Þróunarsamvinnustofnun brugðust embættismennirnir ekki vel við því.

Hér í dag hefur líka talsvert verið rætt um aðkomu þingsins. Mér finnst sú aðkoma sem lögð er upp með í frumvarpinu ekki mjög góð en hins vegar hafa menn velt því upp í umræðunni í dag að við mundum breyta þessu öllu einhvern veginn þannig að utanríkismálanefnd kæmi betur að þessum störfum. Þingmaðurinn talaði talsvert í ræðu sinni um að einhver þyrfti að hafa eftirlit með þessum störfum. Ef þetta færi nú á versta veg og frumvarpið yrði samþykkt óbreytt væri ekki alveg augljóst að þá þyrfti þingið, þingið beint — og þá er ég ekki að tala um einhverja þingmenn sem eru kosnir sérstaklega í einhverja nefnd til að geta farið einu sinni á ári til Afríku eða eitthvað — eða einhver þingnefnd að hafa það verkefni (Forseti hringir.) að fylgjast með þessu?