144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér talaði um stóriðjuna. Ég ætla að tala um „eitthvað annað“, eins og var gert grín að okkur vinstri grænum á árum áður fyrir að segja. En hvað er nú eitthvað annað? Ætli það sé ekki ferðaþjónustan í landinu sem er eitthvað annað og orðin stærsti útflutningsgeiri landsins?

Í gær stóð Landsbankinn fyrir ráðstefnu um stöðu og horfur í ferðaþjónustu. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að árið 2017 komi hingað 430 ferðamenn á hverja 100 íbúa. Það er gífurleg fjölgun fram undan. Reiknað er með að fjölgunin í ár verði um 20%. Störfum í ferðaþjónustu hefur fjölgað um 4 þúsund frá árinu 2011 og er það um 40% af nýjum störfum sem orðið hafa til. Eins og ég nefndi eru útflutningstekjur orðnar meiri af ferðaþjónustu en af sjávarútvegi og stóriðju. Arðsemi greinarinnar er á uppleið.

Bandaríski ferðamálafrömuðurinn Doug Lansky vakti athygli á að þessi gífurlegi fjöldi ferðamanna þýddi vissulega miklar áskoranir fyrir íslenskt samfélag, hvernig okkur tækist að viðhalda aðdráttarafli landsins sem er auðvitað fyrst og fremst íslensk náttúra. Helstu ástæður fyrir því að ferðamannastöðum annars staðar í heiminum færi stundum hnignandi væru offjölgun ferðamanna. Einnig þyrfti ferðaþjónustan að bjóða upp á nýjungar og nýja áfangastaði og uppbyggingu innviða samfélagsins. Við erum þar stödd að við erum ekki enn þá búin að ákveða hvernig við ætlum að fjármagna Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og við verðum að fara að taka af skarið með það. Ríkisstjórnin getur ekki dregið lappirnar lengur. Ég tel líka gífurlega mikilvægt að við aukum aðdráttarafl ferðamannastaða vítt og breitt um landið svo þetta verði ekki bara einhver ein stór bóla á höfuðborgarsvæðinu sem springi, það er verkefnið fram undan.(Forseti hringir.) En „eitthvað annað“ er ferðaþjónustan í landinu.