144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Hún gefur mér líka tækifæri til að bregðast við þeim hluta spurningar hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur sem ég náði ekki að bregðast við áðan og lýtur að því hvort ég þekki einhver dæmi þess að þetta hafi verið gert, að sjálfstæð stofnun hafi verið tekin inn í fagráðuneyti. Ég skal ekki segja hvort það sé með einhverjum hætti hægt að halda því fram að það hafi verið tilfellið þegar Varnarmálastofnun var lögð niður, en ég held að annaðhvort eigi þau rök sem hv. þm. Halldóra Mogensen var að fara með við almennt eða þau eigi ekki við. Ég tel að þau eigi ekki við. Eiga þau við ef taka ætti embætti skattrannsóknarstjóra inn í fjármálaráðuneytið, af því umsögnin er nú þaðan? Eiga þau við um að flytja ríkisskattstjóra inn í fjármálaráðuneytið? Eiga þau við um Vegagerðina inn í innanríkisráðuneytið? Landspítalann, yfirstjórn hans inn í heilbrigðisráðuneytið? Auðvitað mætti reyna að rökfæra þær aðgerðir á sama hátt, að þá væri yfirstjórnin á einum stað, en það er augljóslega ekki gott skipulag vegna þess að það þýðir að verið er að steypa saman framkvæmd og eftirliti. Við þurfum að hafa öflugt eftirlit. Það á að vera í ráðuneytunum. Síðan þurfum við sterkar sjálfstæðar stofnanir sem hafa burði til að marka stefnu sem nýtir sem best fjármunina, vegna þess að góð stefnumörkun getur sparað svo mikla peninga og nýtt fjármuni svo miklu, miklu betur. Þess vegna eigum við að rækta íslensku hefðina um sterkar sjálfstæðar stofnanir utan ráðuneyta.