144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hagræðingarhópurinn gerði 111 tillögur sem lagðar voru fram 11. nóvember 2013. Markmið tillagnanna var auðvitað að spara en líka að hagræða og gera rekstur ríkisins skilvirkari og auka framleiðni, þannig að að því leyti getur þetta fallið undir markmið hagræðingarhópsins samkvæmt greiningu í frumvarpinu.

En 24. tillaga hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Utanríkisráðherra móti framtíðarstefnu um skipulag og vinnubrögð utanríkisþjónustunnar. Meðal annars verði horft til samspils og verkaskiptingar utanríkisráðuneytisins, annarra ráðuneyta, Íslandsstofu, Þróunarsamvinnustofnunar og sendiskrifstofa. Þróun utanríkisþjónustu nágrannalandanna verði skoðuð og leitað fyrirmynda um nýsköpun sem bætt getur hagkvæmni og árangur.“

Þórir Guðmundsson var fenginn til þess að skrifa skýrsluna í aðdraganda að annarri skýrslu og hún er ábyggilega hverrar krónu virði, ekki ætlaði ég að efast um það þó að hún geti ekki ein og sér staðið undir þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu. En eins og fram kemur í umsögn frá fjármálaráðuneytinu starfa nú 40 starfsmenn hjá Þróunarsamvinnustofnun og ekki er gert ráð fyrir að neinn af þeim hætti og ekki er heldur gert ráð fyrir því að breytingar verði í húsnæðismálum. En þeir eiga sem sagt að verða starfsmenn ráðuneytisins eftir breytinguna.