144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún hefur sömu áhyggjur og við hin út af þessu máli og sagði það líka í gær. Ég skil ekki, frekar en margir sem hafa bent á það hér, að ef frumvarpið á að taka gildi 1. janúar 2016, Þróunarsamvinnustofnun Íslands er með skuldbindingar til 2017 í þessum þremur löndum, af hverju það má ekki bíða í rúmt ár og taka þá gildi 1. janúar eða 1. júní 2017 eða hvað það nú er? Við bíðum þess þá að úttektirnar komi og utanríkisráðuneytið þarf ekki að fara strax í verkefnið, þ.e. Þróunarsamvinnustofnun, áður en þeim er lokið. Við skoðum þá þetta allt saman í ljósi úttektanna. Þá erum við í raun komin með þær forsendur sem við þurfum til að geta tekið verulega upplýsta og góða ákvörðun.

Mér finnst lítið hafa komið fram í umræðunni að skrifstofur Þróunarsamvinnustofnunar hafa oft og tíðum starfað nánast sem sendiráð erlendis og hafa ekki tekið neitt sérstaklega fyrir það. Umdæmisstjórinn er staðgengill sendiherra og ég tel að í því sé mikill sparnaður fólginn. Það hefði verið áhugavert að heyra hæstv. ráðherra taka það fyrir í lokaræðu sinni hvort hann telji að fólginn sé sparnaður í því fyrir landið að hafa það með þeim hætti.

Lögin sem sett voru 2008 eru í takt við ábendingar ríkisendurskoðanda. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Telur hún að það hefði átt að bíða? Deilir hún því með mér að þá værum við komin með það í hendurnar sem við þurfum til að taka verulega upplýsta (Forseti hringir.) og góða ákvörðun miðað við það sem ég var að segja áðan?