144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen andsvarið. Ég fór einmitt yfir það hérna áðan að ég þekki ekki til þess að þetta hafi verið gert á síðastliðnum árum, en ég ætla líka að viðurkenna að ég hef ekki persónulega gríðarlegt minni á þessu sviði. Ég hef bara verið hér í sex ár. Sú ríkisstjórn sem ég studdi stundaði ekki vinnubrögð sem þessi.

En farið er yfir þetta í frumvarpinu, bent er á Ástralíu og Kanada að mig minnir sem hafa gert þetta en … (Utanrrh.: Nýja-Sjáland.) — Já, Ástralía og Nýja-Sjáland. (Utanrrh.: Danmörk.) Hæstv. ráðherra er með hér á reiðum höndum ýmis ríki sem hafa stundað þetta en við höfum líka nokkur í máli okkar bent á Ítalíu sem hefur valið að fara aðra leið og ég held að það séu þessi veigamiklu rök fyrir því að skilja að stefnumótun, framkvæmd og eftirlit. Þróunarsamvinna er alvörumálaflokkur. Það er málaflokkur sem hefur gríðarlega mikla þýðingu þó að við séum lítil í hinu stóra samhengi. Og það að grafa undan þeim málaflokki með þessum hætti er eitthvað sem við eigum ekki að geta samþykkt, ekki frekar en við mundum samþykkja að aðrar mikilvægar opinberar stofnanir yrðu lagðar niður og settar inn á einhver svið í ráðuneytum.