144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Eitt sem fylgir því að þessi stofnun verður tekin inn í ráðuneytið er að þá hverfur að framlag til þróunaraðstoðar verði sérstaklega skilið að frá fjármálum utanríkisráðuneytisins, a.m.k. tvíhliða þróunaraðstoð. Það hefur líka þau áhrif að ekki verður lengur til sérstakur fjárlagaliður sem heitir Þróunarsamvinnustofnun. Það er alveg ljóst að ráðuneytið hefur þá meira svigrúm til þess að færa á milli liða og færa á milli starfsemi. Ég óttast svolítið að það geti haft í för með sér að þeir fjármunir sem ættu að fara þarna, og mér finnst það svolítið, hvað á ég að segja, leiðinlegt eða ekki nógu gott, verða ekki jafn sýnilegir og áður, fjármunir sem eiga að fara í starfsemi sem eining hefur verið um á meðal stjórnmálaflokka. ólíkt því sem gerist um aðra þætti utanríkisþjónustunnar. Er ekki hætta á því að sú eining sem hefur verið um þessi mál tapist og það fari að verða svolítið meiri tortryggni gagnvart því hvert fjármagnið fer og hverjar áherslurnar eru? Er ekki hætta á því með því að búa til þennan stóra pott?