144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar til að spyrja hana um frumvarpið sem er nú þó nokkuð umfangsmikið, upp á 14 greinar. Rökstuðningurinn fyrir framlagningu þess virðist aðallega vera sá að það sé í takt við nýjar áherslur á alþjóðavettvangi varðandi þróunarsamvinnu. Heimurinn er að fást sameiginlega við vandamál eins og loftslagsbreytingar og ýmislegt sem kallar á að alþjóðasamfélagið leysi og ráðuneytið hefur einnig með höndum, og hins vegar tvíhliða samninga þar sem samvinna er við einstök ríki varðandi ýmis uppbyggingarverkefni. Það eru sem sagt rök að það sé eitthvað slíkt en yfir það er ekki almennilega farið, það er einhvern veginn ekki hönd á festandi hvernig það á að efla áherslurnar í þróunarsamvinnu. Bent er á að ekki sé sparnaður af þessu, en þó er rökstuðningur í frumvarpinu að þetta sé hagkvæmara og einfaldara og komi í veg fyrir tvíverknað og eitthvað slíkt. Það eru mjög veikar röksemdir sem færðar eru í frumvarpinu.

Er þingmaðurinn sammála mér um að í raun sé tilgangurinn bara einn, að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun? Ég get ekki alveg gefið mér hvaða ástæða kunni að vera önnur en sú að það sé vegna mikils sparnaðar undanfarið í utanríkisráðuneytinu og að styrkja eigi það með þessum hætti. En það er erfitt að vita af því að rökstuðningurinn (Forseti hringir.) er ekki góður. En er eitthvað annað markmið með frumvarpinu en að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður?