144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla að notfæra mér það að geta komið tvisvar sinnum upp til að tala um þetta mikilsverða mál. Umræðan hefur staðið nokkuð lengi og verið gagnleg að mörgu leyti, jafnvel þó að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar hafi látið hjá líða að taka þátt í henni. Það er nefnilega ýmislegt sem hefur komið fram, virðulegi forseti, eins og það sem ég vil leggja áherslu á, þ.e. að fram kom, ég held hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, að tillaga nr. 23 af 111 tillögum hagræðingarhópsins svokallaða er sú að leggja niður þessa stofnun.

Ljóst hefur verið alveg frá upphafi að formaðurinn, sem nú er hv. formaður fjárlaganefndar, er á móti stofnuninni, hún hefur lýst því margoft yfir að hún er á móti þessari stofnun og hún telur að við eigum að leggja minni peninga þangað en við höfum gert, enda eins og kom fram hér í umræðum og andsvörum við síðasta ræðumann eru útgjöld til málaflokksins nú um 2,3 milljörðum lægri, held ég, en hafði verið samþykkt hér samhljóða af öllum nema hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og sannast að segja á mjög erfiðum tímum. Ég man eftir því og hef getið þess fyrr í þingræðu að ánægjulegt var að utanríkismálanefnd komst að sameiginlegri niðurstöðu um að hækka fjárlög til þessa málaflokks á mjög erfiðum tímum, við þóttumst öll geta það. Síðan var það ekki hægt.

Því velti ég fyrir mér stöðu ráðherrans og hvað honum gengur til. Ég er að komast á það að hann sé sérstakur sendifulltrúi Vigdísar Hauksdóttur og hann hafi komið í hennar krafti hingað til að koma því merka stefnumáli hennar á framfæri um að lækka þau framlög sem við leggjum til fátækustu þjóða heims. Og það svona í framhaldi af þeirri sendiför sem hann fór fyrir hana fyrir tíu dögum, eða hvort það er orðinn hálfur mánuður, og skilaði einhverju óskiljanlegu bréfi til Evrópusambandsins eða ráðherraráðs Evrópusambandsins um það að við hefðum slitið aðildarviðræðum, sem er náttúrlega mjög í hennar þökk.

Ég lít því nú bara svoleiðis á, virðulegi forseti, að hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, sé orðinn sérstakur sendifulltrúi Vigdísar Hauksdóttur. Það er ég ekki mjög ánægð með fyrir hans hönd ef ég á að segja alveg hreint eins og er.

Ég get náttúrlega ekki þakkað ráðherranum eða öðrum stjórnarþingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í umræðunni með okkur og er þess vegna kannski svolítið hornótt hér í lokin. En það er kannski ekki furða þótt fólk verði hornótt þegar það sem hér er sagt er ekki virt viðlits og þykir ekki ástæða til að svara. Ég veit ekki alveg, virðulegi forseti, hvort maður á að fagna því að hér sjást stjórnarþingmenn á vappi eða sitja hér inni en leggja ekkert til málanna. Ekki neitt. Það er náttúrlega dónaskapur við þingsalinn að haga sér svona. Það er það eina sem ég get sagt um þetta framferði. Ég hef lokið máli mínu.