144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur sem gerði því skóna að hæstv. utanríkisráðherra væri sendifulltrúi hv. formanns fjárlaganefndar, hygg ég það sé, samflokkskonu hans, Vigdísar Hauksdóttur, sem margoft hefur gerst talsmaður þess að skorið verði niður í framlögum Íslands til þróunaraðstoðar.

Spurning mín er þessi til hv. þingmanns: Er ekki rétt skilið hjá mér að það frumvarp sem nú liggur fyrir um breytingu á skipulagi þróunarsamvinnu Íslendinga sé ekki hugsað til að spara peninga, að ekki sé markmiðið með frumvarpinu að draga úr útgjöldum ríkisins heldur snúist það einvörðungu um innra skipulag þessa starfs? Eða eru aðrir fletir á því sem ég kem ekki auga á?