144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér þarf ekki um sárt að binda að mínu mati. Þessi umræða hefur nú bráðum staðið í tvo þingdaga og í allri umræðunni hefur það skýrst mjög vel að meginefni þessa frumvarps, sem felur í sér að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, hvílir ekki á neinum sérstökum rökgrunni. Hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur komið og spurt spurninga, sem kristallaðist í reynd í kjarnaræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar: Hvernig ætla stjórnvöld að rísa undir þeirri sönnunarbyrði sem hvílir á þeim þegar þau hafa frumkvæði að því að breyta með róttækum hætti kerfi sem gengur býsna vel, kerfi sem að dómi hæstv. utanríkisráðherra gengur svo vel að hann orðar það svo í þeim texta sem hann leggur fram tillögum sínum til stuðnings að margsannað sé af hálfu erlendra úttektaraðila að stofnunin sinni sínu starfi ákaflega vel. Hvers vegna á þá að leggja hana niður? Engin rök hafa komið fyrir því.

Herra forseti. Ég hef verið hér lengi á dögum og það hefur runnið upp fyrir mér undir þessari umræðu að svo virðist sem stjórnarliðið sjálft, sem á auðvitað að vera hryggsúlan í stuðningi við þetta frumvarp ef það kemur einhvern tíma til atkvæða sem ég er farinn að efast um, treysti sér ekki til að koma og veita hæstv. ráðherra stuðning í málinu. Það hefur aldrei gerst svo ég muni eftir að það komi inn í þingið umdeilt frumvarp sem flutt er af miklum þrótti og kappi að viðkomandi fagráðherra án þess að það njóti einhvers stuðnings, a.m.k. úr hans eigin flokki. Hér hefur það gerst á síðustu tveimur dögum að á meðan hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa fyrsta kastið að minnsta kosti þrumað í sætum sínum hafa þeir glúpnað undan oki þeirra andraka sem stjórnarandstaðan hefur flutt. Enginn þeirra hefur séð ástæðu til að koma upp og skýra málið eða lýsa yfir stuðningi við það. Og meira að segja sá sem er hvað málsnjallastur og rökvísastur í þessum sölum, hv. formaður utanríkismálanefndar, Birgir Ármannsson, hann hefur verið við hvað mest af umræðunni en hefur ekki treyst sér til að koma upp og styðja hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli.

Þegar maður fer yfir rökin og reynir að kristalla þau fram sem felast í bæði máli hæstv. ráðherra og í greinargerðinni stendur ekki mikið eftir. Ég hef þegar bent á það nokkrum sinnum í þessari umræðu að það sem hæstv. ráðherra nefndi til úr skýrslu DAC-nefndarinnar stenst einfaldlega ekki. Sú skýrsla hefur vissulega í sér að geyma einhvers konar ábendingar um það hvernig mætti hugsanlega taka á viðameiri framkvæmdum inni í framtíðinni, ef svo færi að hæstv. ráðherra mundi skyndilega vakna upp einhvern daginn og ákveða að fara eftir því sem fyrri ríkisstjórn samþykkti varðandi aukningu framlaga. Það var á því sem þær ábendingar byggðu, fáu öðru. En þar er hins vegar ekki, eins og hæstv. ráðherra sagði í andsvörum, að finna neinar ábendingar um að fara eigi þessa leið. Það er margvíslegt fyrirkomulag sem hægt er að benda á sem aðrar þjóðir hafa, t.d. hin Norðurlöndin sem hafa annars konar en okkar, Ástralía, Kanada, en það er líka hægt að benda á að þróunin hefur sums staðar gengið í aðra átt, eins og t.d. á Ítalíu. Það sem skiptir mestu máli er að fyrirkomulagið á þróunarsamvinnu mótast eftir aðstæðum hverju sinni og það fyrirkomulag sem hér er hefur gengið vel, eins og hæstv. ráðherra hefur staðfest í ræðu og í því riti sem ég vísaði til áðan. En það fellur ekki undir neina af þeim þremur hópum eða módelum sem menn hafa neytt annars staðar. Ef menn hins vegar ætla að breyta þessu þurfa að vera sterk rök. Rökin eru ákaflega veik.

Hæstv. ráðherra segir að þetta sé gert til að koma í veg fyrir skörun á stefnumótun og framkvæmd. Ég og aðrir hafa spurt hæstv. ráðherra: Hvar er sú skörun? Við því var ekkert svar. Það átti að draga úr tvíverknaði í rekstri. Það er ekki hægt að benda á hvar sá tvíverknaður er. Það á að draga úr óhagræði. Það er heldur ekki hægt að benda á það. Það á að tryggja að samskipti við erlend ríki séu samstillt og hnökralaus. Ekki er hægt að benda á að vegna þróunarsamvinnunnar sé ekki svo. Það á að tryggja að þróunarsamvinnan sé í takt við utanríkisstefnu Íslands. Herra trúr, dettur einhverjum í hug að svo sé ekki? Það sem skiptir þó mestu máli er að hér er verið að fara gegn leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar (Forseti hringir.) um góða stjórnsýslu með því að færa saman eftirlit og framkvæmd.