144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt sem ég gleymdi í ræðu minni áðan og ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á það. Það er algjörlega hárrétt að ég fór ekki rétt með eða mig misminnti þegar ég sagði í viðtali að þessi ágæti prófessor, ágæta kona, hefði sagt í skýrslu sinni eða lagt til að þetta ætti að sameinast. Það er rétt hjá hv. þingmanni, það var ekki rétt sagt. Það kemur fram í þeirri ágætu skýrslu sem hér hefur verið vitnað til að í fyrsta lagi sé verið að skrifa skýrsluna út frá markmiðum þáverandi utanríkisráðherra og sagt meðal annars, og það er eitt af fimm markmiðum ef ég man rétt, að ekki eigi að skoða breytingar á núverandi fyrirkomulagi Þróunarsamvinnustofnunar, það er orðað einhvern veginn þannig. Það á sem sagt ekki að skoða hvort það eigi að flytja hana eða færa hana. Síðar í þeirri ágætu skýrslu eru skrifuð inn rök fyrir því af hverju sú niðurstaða, sem er birt á bls. 10 í skýrslunni, er fengin. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á að leiðrétta það og viðurkenna um leið að mér urðu á mistök í þessu viðtali.

Varðandi orð um hina svokölluðu DAC-nefnd, þróunarnefnd OECD, er það eins og ég sagði, það komu fram ábendingar frá þeirri nefnd og þær voru í þá veru að rétt væri að íslensk stjórnvöld skoðuð það skipulag sem er á þessari starfsemi. Það er nákvæmlega það sem við gerðum.