144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í allri þessari umræðu held ég að að minnsta kosti ekki ég og örugglega enginn annar sem ég man eftir hafi sett fram ásakanir um hæstv. ráðherra hafi pantað og fengið pöntun afgreidda hjá ráðgjafa sínum. Ég vil út af orðum hæstv. ráðherra áðan gefa honum kost á að koma hingað og draga ummæli sín til baka um dr. Sigurbjörgu til að það verði engin eftirmál af því, en auðvitað er nauðsynlegt að taka það upp þegar hæstv. ráðherra vegur með þessum hætti að starfsheiðri manneskju sem ekki getur svarað fyrir sig hér og það pólitískum sökum.

Ég ætla svo ekki að segja mikið meira annað, herra forseti, en ég ætla að rifja það upp fyrir þinginu að ég sit í utanríkismálanefnd. Þangað komu fulltrúar Þróunarsamvinnustofnunar, ég veit alveg hvað þeir sögðu og ég er ekki að rjúfa neinn trúnað vegna þess að forstjórinn sagði opinberlega að þetta væri vond hugmynd. Ég er ekki að rjúfa neinn trúnað þó að ég upplýsi það hér. Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir að (Forseti hringir.) haft verði samráð við ÞSSÍ. Svo var líka haft samráð við Ríkisendurskoðun, að vísu dró hann örlítið í land með það í seinni parti andsvars síns við hv. þm. Ögmund Jónasson. (Forseti hringir.) En hæstv. ráðherra lýkur þessu máli eins og í upphafi, hann skautar ekki alveg á svelli alls sannleika í málinu.