144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

eftirlit með vistráðningu.

523. mál
[17:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Á vettvangi Norðurlandaráðs hefur verið rætt um vistráðningar ungs fólks. Það getur ráðið sig til starfa við ýmis verkefni eða hjá fjölskyldum erlendis og dvelur þá hjá þeim. Í nágrannalöndum okkar hafa komið upp mál er varða alvarleg brot á aðilum sem hafa komið til annarra landa í gegnum vistráðningar. Þar er meðal annars verið að tala um misbeitingu þess valds sem ráðandi telur sig hafa yfir umsækjendum, misnotkun starfskrafta og þá þrælkun, misnotkun andlega og kynferðislega, jafnvel mansal og vændi. Þetta er helst í þeim tilfellum er ungar konur koma frá vanþróaðri og/eða fátækari löndum til Norðurlandanna. Þá er þetta helst að finna hjá efnameiri fjölskyldum og þeim sem hafa mikið vægi innan samfélagsins og nýta sér það til þess að hylma yfir gjörðir sínar og/eða komast upp með þær.

Þá þora einstaklingar sem í þessu lenda oft ekki að leita sér hjálpar vegna hótana og þess hve mjög þeir hafa verið brotnir niður. Það er misjafnt hversu vel er staðið að vistráðningum; aðstoð, eftirliti og ráðleggingum við einstaklinga sem fara til annarra landa. Þar sem Norðurlöndin eru nágranna- og samstarfslönd okkar á mörgum sviðum og þar sem ég er fulltrúi í velferðarnefnd Norðurlandaráðs vil ég vekja athygli á þessu og spyr því hæstv. innanríkisráðherra að því sem að okkur snýr hérlendis:

Hvernig er eftirliti háttað með vistráðningu, bæði með þeim sem fara utan, frá okkur, og þeim sem ráða sig hingað? Þá er ég að spá hvort fagaðilar haldi utan um ungt fólk sem er í mörgum tilfellum að fara eitt utan í fyrsta sinn og hvort aðstoð sé hægt að fá ef eitthvað kemur upp. Ég hef séð tilmæli til þeirra sem ráða sig í vist erlendis að reyna sjálf að leysa úr ágreiningi eða vandamálum með því að koma því á framfæri, m.a. við fjölskyldu sem viðkomandi dvelur hjá, og að þau þurfi að láta vita um ágreining eða vandamálið áður en dvöl eða verkefni lýkur. Hver er réttur þessara einstaklinga og hvernig er hægt að setja þá byrði sem fyrirfinnst í þessum tilmælum á einstakling sem getur verið mjög brotinn? Hvernig á að ræða brot við þann sem kannski braut á viðkomandi og hvernig er hægt að ætlast til þess að sá hinn sami taki á réttan hátt á vandamálinu og/eða þeim ágreiningi sem upp getur komið?

Þá spyr ég einnig:

Telur ráðherra að kerfið sem við höfum og núverandi eftirlit komi í veg fyrir þrælkun, misnotkun og mansal hérlendis? Þá á ég við misnotkun á vinnutíma, andlega og/eða kynferðislega, jafnvel misnotkun á stöðu einstaklings sem er langt frá heimahögum og ekki vel inni í lögum og reglum dvalarlandsins.