144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

flutningur verkefna til sýslumanna.

548. mál
[17:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er fyrirspurn sem var lögð fram í febrúar síðastliðnum og kannski hefur margt breyst síðan hún var lögð fram upphaflega. Á síðastliðnu ári voru samþykkt ný lög um sameiningu framkvæmdarvalds og stjórnsýslu ríkisins í héraði þar sem sýslumannsembætti voru sameinuð og fækkað úr 24 í níu. Í kjölfarið átti að gera embættin öflugri og betur í stakk búin að taka við nýjum verkefnum þótt þjónustustöðvarnar yrðu áfram óbreyttar, þ.e. 29. Við afgreiðslu frumvarpsins og í umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd voru áhyggjur af áhrifum breytingarinnar á byggðarlög sem misstu sín sýslumannsembætti. Þó var gefin skýr yfirlýsing um það að þar sem sýslumannsembætti legðust af yrði áfram löglærður fulltrúi og óbreytt mannahald sem átti að tryggja að þjónustan færi ekki af staðnum. Allsherjar- og menntamálanefnd bætti bráðabirgðaákvæði III inn í lögin sem fjallaði einmitt um að hæstv. innanríkisráðherra í samstarfi við forsætisráðherra skyldi láta semja aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið þar sem afmörkuð skulu þau stjórnsýsluverkefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra sem talið er ákjósanlegt að flutt verði til embætta sýslumanna. Sú aðgerðaáætlun átti síðan að liggja fyrir 1. janúar 2015 en gerði það raunar ekki og þess vegna var fyrirspurnin borin fram.

Menn hafa flutt verkefni til sýslumanna í mörgum tilfellum, en hugmyndin var sú að menn færu skipulega yfir þetta í Stjórnarráðinu. Síðan þessi fyrirspurn var borin fram hefur hv. allsherjar- og menntamálanefnd fengið skýrslu frá ráðuneytinu um flutning verkefna til sýslumannsembætta. Því miður verður að segjast alveg eins og er að þar er um ansi þunnan þrettánda að ræða og fá mál sem hafa fengið náð. Verið er að færa til fyrst og fremst innan stofnana hjá innanríkisráðuneytinu, frá lögreglu yfir til sýslumannsembætta eða eitthvað slíkt, lítil verkefni og gjarnan bara á milli aðila innan stjórnsýslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef því áhyggjur af því að þessu ákvæði, sem var mikilvæg forsenda þessara breytinga eða eitt af því sem var rætt þar mikið um og er í rauninni í anda þess sem hæstv. ríkisstjórn hefur haft á málefnaskrá sinni, þ.e. að tryggja það að styrkja byggð í landinu, að þau markmið náist ekki fram.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra einmitt um hvað líði aðgerðum hvað þetta varðar og kannski leyfa mér að breyta spurningunni örlítið og spyrja hvort það hafi ekki valdið vonbrigðum hjá hæstv. ráðherra hvernig önnur ráðuneyti hafa tekið á þessum málum og hversu fá verkefni þau hafa tilnefnt inn í þessa púllíu. Og hvort við verðum ekki að gera miklu betur ef við ætlum að standast þetta bráðabirgðaákvæði í lögunum um að verkefni fari til sýslumanna.