144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

flutningur verkefna til sýslumanna.

548. mál
[17:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Mér er ljúft að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður kom með varðandi verkefni til sýslumanna.

Það er rétt að frá því fyrirspurnin kom fyrst fram hefur það gerst að aðgerðaáætlunin um flutning verkefna til sýslumanna liggur fyrir og við höfum gert hana aðgengilega á vefsíðu innanríkisráðuneytisins. Ég vil samt sem áður upplýsa þingheim um það að þegar ég kom að málinu og sá þessa aðgerðaáætlun og þau verkefni sem þar voru nefnd og síðan hvernig hlutirnir höfðu gengið fram hjá öðrum ráðuneytum, þá ætla ég að segja það alveg eins og er að ég var ekki alveg ánægð með það hversu fá verkefni komu úr hinum ráðuneytunum. Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni í ríkisstjórninni að ég tel að við þurfum að gera miklu betur. Mín skoðun er sú að embætti sýslumanna sé þess eðlis, þetta er framkvæmdarvald í héraði, að við eigum að nýta þau embætti miklu betur en við höfum gert. Ég get líka lýst þeirri skoðun minni og ætla svo sem ekki að leggja hana öðrum í munn, en ég mundi oft frekar vilja flytja verkefni til sýslumannanna en að setja upp sérstakar einingar aðrar úti á landi, það er mín persónulega skoðun.

Varðandi þau verkefni sem helst er fyrir séð að talið verði ákjósanlegt að flytja til embættis sýslumanna þá verð ég að segja alveg eins og er að þau verkefni eru mest fengin úr innanríkisráðuneytinu. Við höfum lagt okkur eins mikið fram og við höfum getað í innanríkisráðuneytinu að færa til verkefni. Eflaust má segja að mönnum gæti fundist sum þeirra léttvægari en önnur, en mikið átak hefur verið unnið í innanríkisráðuneytinu til að koma verkefnum fram. Við viljum þar fara fram með góðu fordæmi og hvatningu til handa öðrum ráðuneytum um að þetta sé skynsamlegt.

Í aðgerðaáætluninni eru talin 19 verkefni sem stendur til að flytja til sýslumannanna. Verkefnin sem flutt verða eru öll á forræði innanríkisráðuneytisins. Við höfum falið sýslumönnum að annast ýmis verkefni sem áður voru unnin í ráðuneytinu, t.d. skráning trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, útgáfa alls konar leyfisbréfa til starfsréttinda héraðs-, dóms- og hæstaréttarlögmanna og leyfisveitingar sem tengjast opinberum fjársöfnunum. Ráðuneytið hefur væntingar til þess að við getum flutt enn fleiri verkefni til sýslumannanna. Við höfum nú þegar bætt við umfangsmiklu verkefni sem snýr að gjafsókn, það ætlum við að flytja til embættis sýslumannsins á Vesturlandi. Við teljum að það verði mjög til bóta fyrir það embætti og skynsamleg nálgun. Við viljum flytja fleiri verkefni á árinu. Þar erum við að tala um réttindi til ökukennslu, leyfi til aksturskeppna, alls konar leyfi varðandi helgidagafrið þar sem hann þarf að ríkja, prentsmiðjurekstur og ég get áfram talið hin og þessi leyfi sem við sjáum fyrir okkur að við getum flutt.

Þá er í aðgerðaáætluninni sett fram tillaga um umfangsmikið verkefni sem gengur út á að færa reglugerðasafn í sama form og rafræna lagasafnið. Þar er um að ræða mikla réttarbót og mikilvæga þar sem reglugerðir eru birtar í sams konar samfellu og lög í hinu rafræna lagasafni sem er uppfært tvisvar á ári. Þá eru breytingar færðar inn í lögin, því þarf ekki að samlesa lög og breytingar sem gerðar hafa verið á þeim. Þetta er verkefni sem við erum enn þá að vinna að og krefst þess að við séum í samráði við önnur ráðuneyti. Við munum gera það, og við munum leggja mjög mikla áherslu á að það verkefni verði að veruleika. Ég mun þrýsta á það gagnvart öðrum ráðuneytum að svo verði.

Þótt ég sé búin að lýsa þessu hér og barma mér örlítið yfir því að innanríkisráðuneytið sé í þessu, hefur mér fundist, svolítið einmana að sinni, þá tel ég samt sem áður að dropinn muni hola steininn, að menn sjái hag í því að flytja verkefni til. Ég býst líka við því, hæstv. forseti, að þeir þingmenn sem eru í þessum sal leggist á árarnar með okkur um það að reyna að flytja verkefni sem skynsamlegt er að flytja til embættis sýslumanna. Þannig stendur þetta mál núna, virðulegi forseti.