144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjármögnun útgjalda til málefna fatlaðs fólks.

639. mál
[20:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég velti því fyrir mér þegar hún talar um að það séu bara 540 milljónir sem út af standi. Það er auðvitað eitthvað brogað við það samt sem áður ef sveitarfélög vilja skila okkur verkefninu aftur, ef þau telja sig engan veginn sjá fram úr því. Þess vegna langar mig að spyrja hvort ráðherrann telji að með þeirri leiðréttingu einni og sér — þrátt fyrir þessa samantekt úr reikningum sveitarfélaganna og að þau vilji tala við hana í þessari viku eða næstu viku um þessi mál — það hlýtur eitthvað að vera sem gengur ekki alveg upp. Ég held að þetta sé verkefni sem öll sveitarfélög hafa meira og minna viljað fá og við höfum rætt hérna um yfirtöku á málefnum aldraðra o.s.frv. En nú stoppa allir og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur talað um að ríkið sé að leggja íþyngjandi kröfur til viðbótar á sveitarfélögin og þess vegna sé hluti af því auðvitað útgjaldaaukandi sem ekki er tekið tillit til í þessum málaflokki og mörgum öðrum.

En ég hefði gjarnan viljað að þessi nefnd hefði verið skipuð fyrr og við værum núna að fjalla um niðurstöðuna, en það er orðið svolítið seint í rassinn gripið þegar staðan er orðin þessi af því að ég trúi því að þetta hafi tekist ágætlega þar sem það hefur gengið upp, þ.e. að öðru leyti en fjárhagslega. Sveitarfélögin hafa auðvitað verið að borga með þessu. En við þurfum líka að muna að einblína ekki eingöngu á réttinn sem fólk á heldur að horfa einnig á þarfirnar. Þær eiga auðvitað að ganga fyrst og fremst fyrir. Ég hef efasemdir um að þetta sé eins einfalt og hæstv. ráðherra vill vera láta. (Forseti hringir.) Ég velti því fyrir mér: Telur ráðherrann, í ljósi þess sem ég fór með hér áðan varðandi fjölgunina og allt annað, að í þeim fjárveitingum sem við erum að setja í þetta sé tekið tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á málinu?