144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er allt saman hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég var alltaf þeirrar skoðunar að ekki þyrfti undanþágur heldur væri hægt að fara aðrar leiðir alveg eins og Evrópusambandið fer til að geta komið vel fyrir borð öllum meiri háttar hagsmunamálum ríkja sem sækja um. Við létum samt reyna á undanþágurnar, bara prinsippsins vegna, í þeim samningum sem við lukum. Þar er að finna eina grjótharða undanþágu, að vísu á litlu máli, en prinsippið er klárt, það er hægt. Ég tel hins vegar að þess þurfi ekki, sérstaklega ekki í sjávarútvegsmálunum, vegna þess að hægt er að fara aðrar leiðir í því. Það er nú önnur saga.

Eitt af því merkilegasta í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður vísar til er einmitt það þegar verið var að fara yfir ferilinn þá sagði höfundurinn, Ágúst Þór Árnason, sem samdi kaflann um umsóknarferilinn, að eitt af því sem stæði upp úr væri að í samtölum við embættismenn (Forseti hringir.) í Brussel hefði það komið fram að ekkert væri óyfirstíganlegt í landbúnaðarmálunum. Það var (Forseti hringir.) partur af hinum stóru tíðindum í því máli.