144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn er að gefa í skyn að ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu við hrunið hefði farið fyrir okkur eins og Grikklandi. Þá vil ég benda hv. þingmanni á að hluti af þeim gríðarlega alvarlega vanda sem við lentum í í hruninu var annars vegar hrun íslenska fjármálakerfisins og hins vegar hrun íslensku krónunnar. Það hjálpaði okkur. Gengisfellingin hjálpaði okkur síðan í uppbyggingarstarfinu að einhverju leyti, en það er ekkert á móts við það tjón sem hrun gjaldmiðilsins olli okkur.

Ég tel aðstæður í Grikklandi gríðarlega alvarlegar. Ég tel að ef það hefðu verið fulltrúar við stjórnvölinn í Evrópusambandsríkjum sem hefðu munað vel, eins og t.d. Helmut Kohl, hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar hefði verið brugðist við af meiri krafti. Þó var nú gengið ansi langt til þess að mæta Grikkjum. Ástandið í Grikklandi er ekki síst til komið vegna djúpstæðrar og langvinnrar spillingar.

Þannig að ég get alveg sagt að ég tel að Evrópusambandið hefði átt að vera mun róttækara í viðbrögðum sínum gagnvart Grikklandi. Evran forðar mönnum ekki frá því að þurfa að vera með ábyrga efnahagsstjórn en hún auðveldar hagkerfi landsins, íbúum landsins sem eru að fjárfesta í húsnæði og lifa lifi sínu sem og fólki sem rekur fyrirtæki, að gera það í umhverfi þar sem er gjaldmiðill sem ekki er lítill og fljótandi með þeim öfgum í gengi sem því fylgir.