144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei heyrt að það hafi verið eitthvert skilyrði af hálfu Evrópusambandsins að taka við aðildarumsókninni að gengið yrði frá Icesave. Ég hef aldrei heyrt það. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn veit þá sjálfsagt eitthvað meira um það en ég. Hann getur þá kannski komið með einhvern pappír og veifað honum hér okkur til skemmtunar. Á hinn bóginn geri ég ráð fyrir því að þingmaðurinn viti að bæði Hollendingar og Bretar eru í Evrópusambandinu og það er líka þannig að í framvinduskýrslum og slíku þá held ég að það komi fram ef einhver aðildarríki gera athugasemdir. Það er alveg ljóst að þessi ríki vildu að þetta yrði leyst en það kom samningaviðræðunum ekkert við. Það er bara þeirra álit. Kannski veit hv. þingmaður ekki að samningaviðræðunum er stýrt af framkvæmdastjórninni en síðan eru það aðildarríkin sem þurfa að samþykkja og menn geta verið með fyrirvara. Ég skal ekkert um það segja, ég veit það ekki, en mér finnst það mjög skemmtilegt og vel til fundið af hv. þingmanni að koma með Icesave inn í þetta mál. En ég held að það hafi ekki haft nein áhrif í þessu máli, ekki nokkur.