144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[17:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sá ekki ástæðu til að koma upp í annað andsvar vegna þess að hæstv. ráðherra svaraði alveg skýrt spurningu minni og var mér það svar mjög að skapi. Ég er sammála því sem ráðherrann sagði, að þeir peningar, þær 215 millj. kr. sem vantar til að fara í þessa jöfnun ættu að koma beint úr ríkissjóði. Því fagna ég og því er ég sammála. En ég hefði kannski ekki verið sammála því ef menn hefðu verið með einhverjar hugmyndir um að leggja frekari álögur á til dæmis íbúa í þéttbýli til að greiða niður kostnaðinn í dreifbýlinu. Ég vitna þar til þeirra orða sem ég hef haft um það mál og breytingartillagna sem ég og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir gerðum við frumvarp um jöfnun dreifikostnaðar í dreifbýli, sem orðið er að lögum.

Ég vil taka aftur upp þráðinn úr stuttu andsvari mínu í upphafi og vitna til þess að þessi vinna hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar með skipun starfshóps sem var skipaður fulltrúum sveitarfélaga á köldum svæðum þ.e. sveitarfélaga þar sem fólk borgar háan húshitunarkostnað hjá Rarik og Orkubúi Vestfjarða. Ég fagna því að áfram skuli vera haldið með þetta mál og tel það vera til eftirbreytni að þó að við skiptumst á skoðunum um stjórnmálaflokka og styðjum eða erum andvíg ríkisstjórnum er hægt í stjórnkerfinu og á Alþingi að halda áfram með góð mál sem unnin hafa verið upp í hendurnar á framkvæmdavaldinu sem gerir þessar tillögur. Þess vegna fagna ég því aftur að þetta frumvarp skuli vera komið fram og að við skulum ætla að fara í þessa jöfnun sem er svo mikilvæg. Það má líka segja að það sé til fyrirmyndar og mætti gera meira af því að í frumvarpinu er loksins Íslandskort í lit og settir bláir og grænir deplar inn á kortið til að merkja kyntar hitaveitur og þar bein rafhitun er, sem er kannski mjög táknrænt. Farið er í gegnum þetta og sýnd þróun orkuverðs o.fl. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það nema að í fskj. 1 í töflu á bls. 10 er tekið dæmi af því hvað það kostar að hita 180 fermetra einbýli. Orkunotkun til hitunar er 38.400 kílóvattstundir og þá sjáum við að hjá Rarik í þéttbýli með nýju kerfi með breytingunum sem gerðar voru í janúar eða febrúar og tóku gildi á þessu ári er talið að húshitunarkostnaður fyrir þetta tiltekna hús með þetta tiltekna magn af orku kosti tæpar 208 þús. kr. Sama verð er hjá Rarik í dreifbýli eftir breytinguna og eins hjá Orkubúi Vestfjarða í þéttbýli og dreifbýli.

En þegar við förum frá vinstri til hægri eftir töflunni komum við að höfuðborginni þar sem sambærilegur kostnaður við að hita húsnæði er 113 þús. kr., eða tæplega helmingi lægri en er á þessum svæðum. Meira að segja er talað um dýrar hitaveitur sem eru væntanlega nýjar hitaveitur sem þurfa að borga niður stofnkostnað o.s.frv. eða eru kannski ekki með eins mikið eða ekki eins heitt vatn og maður þekkir dæmi um þar er kostnaðurinn í kringum 185 þús. kr. Síðan er tekið dæmi af Ísafirði þar sem kostnaður á ári er 180 þús. kr. og Seyðisfirði og Höfn þar sem hann er 185 þús. kr. Að lokum er kostnaðurinn í Vestmannaeyjum 164 þús. kr.

Með þessari upptalningu sjáum við hversu geysilega mikill munur er þarna á. Þess vegna ber að fagna því að vísindamenn okkar, framkvæmdamenn og frumkvöðlar, hafi náð betri tökum á borunum eftir heitu vatni. Við höfum fundið vatn á stöðum þar sem við héldum áður að ekkert heitt vatn væri að finna og byggt þar hitaveitur þó að þær séu dýrar til að byrja með. Vonandi er það vegna þess að verið er að greiða niður stofnkostnað, rannsóknir og annað slíkt. En það er auðvitað sláandi hvað það er geysilega mikill munur þarna á. Munurinn verður aldrei jafnaður að fullu en þarna er sem sagt verið að jafna kostnaðinn á milli þéttbýlis og dreifbýlis á orkusvæði Rariks og Orkubús Vestfjarða þar sem þörfin er mest.

Það þarf ekki að orðlengja umræðu um þetta mál þegar kemur fram frumvarp sem jafn mikil sátt er um og ég held að verði um þetta eða ég er nokkuð viss um að svo verði. En ég vil segja varðandi tal um rannsóknir á fleiri svæðum og leit að heitu vatni, það er auðvitað mjög gott þjóðhagslega ef við finnum heitt vatn, að minnast á það hér sem lagt var til í tillögum starfshópsins, þ.e. lagt var til að heimiluð yrði lenging á stofnstyrkjaframlagi í allt að tólf ár ef þörf krefði. Það voru tillögur sem komu frá nefndinni og ef ég man rétt vorum við með frumvarp í atvinnuveganefnd undir lok síðasta kjörtímabils þó að ég muni nú ekki nákvæmlega hvað það var, það skiptir ekki máli, en nefndin tók sig til og breytti þessu ákvæði strax. Vonandi hefur hvetur það til rannsókna og eftir atvikum borana og leit að heitu vatni, sem þýðir þá vonandi hitaveitugerð ef vatn finnst, þar sem stofnstyrkjaframlagið í allt að tólf ár í staðinn fyrir átta hefur töluvert mikið að segja í þessum efnum.

Það þarf ekki að orðlengja mikið um þetta mál og ræða það hér við 1. umr. en eins og ég hef áður sagt skulu menn koma hingað upp og fylgja sínum skoðunum og ræða þetta mál, kosti þess og galla, ef einhverjir eru, sem er þá leiðbeinandi fyrir nefndina. En við fyrstu yfirsýn sýnist mér þetta vera mjög gott mál og ef ég má nú vera svolítið gamansamur í restina er þetta góð arfleifð frá síðustu ríkisstjórn til þessarar ríkisstjórnar sem fylgir því eftir og klárar það. Það færi vel á því að það væri gert á fleiri sviðum.