144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[18:58]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vandi þessa máls í hnotskurn er kannski sá að við getum ekki með vissu fullyrt hversu mikið er verið að leigja út af alls kyns gistingu sem hvergi er skráð. Það er vandi málsins í hnotskurn. Hér er í fyrsta lagi verið að gera tilraun til þess að ná ákveðnum hluta af þeirri gistingu upp á yfirborðið. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að í frumvarpinu sé sú nálgun að gera lögbrot lögleg. Mér finnst spurningin ætti að vera frekar: Af hverju er það ólöglegt ef einhver vill leigja út íbúðina sína eða sumarhúsið sitt, frístundahúsið sitt, til ferðamanna eða annarra hluta af árinu? Af hverju á það að vera ólöglegt? Við erum einmitt að reyna að ná þessu upp á yfirborðið til þess að geta fengið betri heildarmynd.

Ég sagði það í framsögu minni (Forseti hringir.) að þetta væri ekki nema fyrsta skrefið. Við erum að reyna að skýra flokkun gististaða eftir veruleikanum, ekki eftir fyrir fram gefnum flokkum sem eiga kannski ekki við akkúrat í þeim raunveruleika sem við lifum í dag.