144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[19:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það, einhverjar leiðir þurfum við að fara. Skráning og umsýsla einföld; jú, vissulega skiptir máli að þetta sé einfalt. En ef ég ætla til dæmis að skreppa til útlanda í fjórar vikur eða eitthvað slíkt og leigja út íbúðina mína þá er ég ekki viss um að það sé fyrirhafnarinnar virði að borga fyrir það 8 þús. kr., fara inn á netið, skrá og skila o.s.frv. — og ég tala ekki um þá sem eru í íbúðaskiptum, það er kannski annar hlutur, fólk hagnast ekki beinlínis á því. Ég hef um það efasemdir, þrátt fyrir að þetta eigi að vera einfalt, að við drögum þetta fólk fram.

Auðvitað viljum við frekar draga þá fram sem eru að leigja í lengri tíma, ekki bara í átta vikur heldur allan ársins hring. Ferðamannatíminn stendur nú allt árið og íbúar á höfuðborgarsvæðinu verða áþreifanlega varir við það. Það eru þeir íbúðareigendur sem við viljum reyna að ná til, þeir falla þá kannski í annan flokk en þann sem ég hef aðallega gert að umtalsefni, þ.e. þá sem leigja til skemmri tíma. Þetta skiptir allt máli. Þeir sem starfað hafa í þessum geira hafa kvartað yfir leyfisveitingaferlinu, að þú þurfir að fara á marga staði til að ganga frá hlutunum. Þetta er tilraun til þess að einfalda þann þátt og það er vel.

Ég tek undir það að einhvers staðar þarf að byrja. Ég tel að eftirlitið sé ekki nægilega vel skilgreint til þess að við getum — ef við gefum okkur að frumvarpið verði að lögum á næsta ári — metið hvernig til hefur tekist að ári liðnu.