144. löggjafarþing — 92. fundur,  20. apr. 2015.

landsskipulagsstefna 2015--2026.

689. mál
[17:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð að það beri að fagna því að búið sé að leggja fram tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu á árinu 2015 til ársins 2026. Með henni gefst okkur tækifæri til að móta heildarsýn í skipulagsmálum og síðast en ekki síst að samræma, þegar hin svokallaða skipulagsskylda kemur til framkvæmda, það þannig að sveitarfélögum er skylt að líta til þessarar landsskipulagsstefnu. Þess vegna langar mig sérstaklega að vekja athygli á því sem stendur í greinargerð með þingsályktunartillögunni um áhrif landsskipulagsstefnu á skipulagsgerð sveitarfélaga. Þar segir:

„Landsskipulagsstefna er stefnuskjal sem er gert ráð fyrir að sé fyrst og fremst framfylgt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð aðal- og svæðisskipulags og taka mið af henni við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á þeim.“

Einnig segir hér um hlutverk landsskipulagsstefnu:

„Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum, nr. 123/2010, segir að um leið og lögð sé áhersla á forræði sveitarfélaga á skipulagsmálum sé með ákvæðum um landsskipulagsstefnu jafnframt viðurkennd þörf á að ríkisvaldið leggi til heildstæða sýn í skipulagsmálum sem lögð verði til grundvallar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Gerð landsskipulagsstefnu sé innleidd til að skapa vettvang fyrir ríkisvaldið til að setja fram skipulagsstefnu og leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga.“

Nú er augljóst að með þessu er farið inn á það vald sem sveitarfélögum er skapað varðandi skipulag. Nú hafa þau orð verið sögð úr þessum ræðustól að skipulagsvaldið sé heilagt. Ég held að flestir séu sammála um að svo er alls ekki og við getum séð þess stað í þessu frumvarpi að að sjálfsögðu er það ríkið sem leggur línurnar þó að taka verði tillit til skipulagsskyldunnar sem sveitarfélögin hafa. Menn hafa nefnilega misskilið 78. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er fjallað um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og hann viðurkenndur nema annað sé ákveðið með lögum. Þetta stjórnarskrárákvæði segir okkur einfaldlega að það er löggjafinn sem ákveður hvað er á forræði sveitarfélaga og hvað er á forræði ríkisins. Áðan voru þeir nefndir þessir sérstöku þjóðgarðar sem við höfum en þar með er ríkið á vissan hátt að takmarka skipulagsvaldið á þessum svæðum hjá sveitarfélögum.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að Reykjavíkurflugvöllur hefur verið mikið í umræðunni. Mönnum finnst hart að skipulagsvaldið yrði fært undir Alþingi. Ég hef bent á að öllum finnist eðlilegt að Keflavíkurflugvöllur sé skipulagður af hálfu ríkisins og hef ekki heyrt nokkurn mann mæla með því að það vald verði fært undir sveitarfélögin á Reykjanesi. Ég hef líka bent á að Svíar fóru þá leið, varðandi þjóðhagslega mikilvæg samgöngumannvirki, að tiltekin skilgreind mikilvæg svæði voru einfaldlega tekin frá sveitarfélögunum og færð undir skipulagsvald ríkisins.

Það er gríðarlega mikilvægt að við áttum okkur á því hvernig 78. gr. stjórnarskrárinnar virkar í raun og veru. Ég vona að ekki verði ágreiningur um það, þegar við samþykkjum þessa landsskipulagsstefnu, að hún komi á einhvern hátt til með að takmarka skipulagsskyldu sveitarfélaga. Ég held að allir séu sammála um þá þörf sem er til staðar, þ.e. að ríkið komi með öfluga landsskipulagsstefnu, sem er svo sannarlega hér á ferðinni, en við stöndum ekki frammi fyrir því að sveitarfélögin, sérstaklega þau sem eiga land uppi á miðhálendi, geti farið út og suður með sitt skipulag, það sé ekkert samræmi og að við getum ekki fylgt því sem stjórnvöld á hverjum tíma vilja stefna að sérstaklega varðandi náttúruvernd. Núverandi ríkisstjórn og núverandi umhverfisráðherra hafa staðið sig mjög vel í þá veruna. Að sjálfsögðu er hægt að gera betur og þessi þingsályktunartillaga er mjög vel til þess fallin.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég fagna því að málið er komið til fyrri umr. Við munum fá það til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd og vonumst til þess að hægt verði að afgreiða það fljótt og örugglega og greiða atkvæði um það síðar á þessu vorþingi.