144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[14:32]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum. Frumvarpið snýr að notkun fánans við markaðssetningu vöru og þjónustu þar sem lagt er til að heimilt verði að nota þjóðfánann við markaðssetningu á vöru og án þess að þurfa að sækja sérstaklega um leyfi.

Virðulegi forseti. Eins og kom vel fram vel í framsögu hæstv. forsætisráðherra og er rakið í inngangi frumvarpsins hefur þetta mál oft verið lagt fram áður og tilgreint, á 138., 139. og 141. löggjafarþingi og jafnframt á 143. þar sem 1. flutningsmaður málsins, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, fór yfir ýmislegt í frumvarpinu í kjölfar ræðu hæstv. forsætisráðherra.

Það kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var með málið á sínu borði og þá var hv. þáverandi þingmaður og núverandi hæstv. ráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, framsögumaður málsins. Ég var einn af flutningsmönnum málsins og vil því nota tækifærið og fagna framgangi málsins sem nú lítur dagsins ljós í því stjórnarfrumvarpi sem við fjöllum um. Það er líka bragur á því að sjálfur hæstv. forsætisráðherra flytji þetta mál þar sem um þjóðfána vorn er að ræða.

Íslenskir framleiðendur og atvinnulífið hafa löngum kallað eftir því að fá að nýta þjóðfánann til að auðkenna framleiðslu, til kynningar á vörum sínum og þjónustu. Til marks um þann vilja var árið 1998 heimilað að sækja leyfi til slíks brúks til forsætisráðuneytis, en þrátt fyrir slíkt ákvæði í núgildandi lögum hefur aldrei reynt á það og reglugerð þar að lútandi aldrei litið dagsins ljós.

Virðulegi forseti. Þótt málið virðist einfalt og löngum hafi verið kallað eftir slíkri notkun er málið flóknara í meðförum en það lítur út fyrir að vera við fyrstu sýn. Þrátt fyrir vilja og markmið til þess að rýmka fyrir notkun þjóðfánans hefur aldrei náðst sátt um hvaða hlutlægu gæðaviðmið eigi að ráða í slíkri reglugerð. Það átti einnig við nú þegar málið var lagt fram og tekið til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ekki voru allir á sömu skoðun um hvað ætti að heimila og hvort yfir höfuð ætti að fylgja slíkum skilyrðingum né heldur var sátt um hvernig ætti að haga þeim skilyrðum eða hlutlægu gæðaviðmiðum, hversu langt ætti að ganga í að takmarka slíka notkun eða hvort það ættu að vera nokkur takmörk yfirleitt. Eftir miklar vangaveltur og ítarlega og gagnlega umfjöllun var sú ákvörðun tekin að lokinni 2. umr. að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar.

Hér er, eins og þá, lagt til að heimila notkun fánans á vöru eða þjónustu, í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir eða auglýsingu, ef uppfyllt eru þau skilyrði að vara sé íslensk að uppruna og að fánanum sé ekki óvirðing gerð. Notkunin miðast við íslenskan uppruna og þann sjálfsagða þátt að það sé gert þannig að engin óvirðing fyrir þjóðfánanum felist í því.

Þá erum við komin í þá stöðu að þurfa að skilgreina íslenskan uppruna. Það hefur komið fram í máli þeirra hv. þingmanna sem töluðu á undan og fóru meðal annars í andsvar við hæstv. forsætisráðherra að ekki liggur alltaf ljóst fyrir hvaða íslensku vörur eiga að falla hér undir. Erfitt er að kveða upp úrskurð um það í 1. umr, en hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun fara yfir málið og þær umsagnir sem kallað verður eftir. Við erum alltaf í þeirri stöðu að þurfa að skilgreina íslenskan uppruna og uppruninn hér er skilyrtur við að varan sé framleidd hér á landi og að uppistöðu til úr íslensku hráefni. Sama gildir um þá vöru sem nær 30 árum í framleiðslu hér á landi, þrátt fyrir að vera að meginefni til úr innfluttu hráefni. Það sama gildir fyrir vöru sem er framleidd hér á landi samkvæmt íslenskri hefð. Auðvitað má deila um tímann í því samhengi. Þegar lagt var af stað með upprunalegt frumvarp var lagt af stað með 50 ára viðmið. Það þótti of strangt og er hér komið í 30 ár.

Ég geri ráð fyrir því að flestir fagni því að þetta skref sé tekið og ekki síst framleiðendur, en fram kemur í frumvarpinu um tilefni á nauðsyn lagasetningar í þá veru að Bændasamtök Íslands og Samtök iðnaðarins sendu Alþingi erindi við frumvarpið þegar það var lagt fram síðast, á 143. þingi, þar sem þeir ályktuðu um mikilvægi þess að nota þjóðfánann við markaðssetningu íslenskrar framleiðslu.

Nái þetta frumvarp fram að ganga er auðvitað um að ræða mjög markvert og mikilvægt skref fyrir íslenska framleiðendur því að um mikla einföldun er að ræða þar sem framleiðendur sem falla undir skilgreindar skilyrðingar geta nýtt þjóðfánann til að auðkenna vöru sína, gæðavöru, til markaðssetningar og sölu í þeim tilgangi, með áherslu á íslensk gæði, að auka sölu sína og tekjur. Einföldunin í þessu felst meðal annars í því að ekki þarf að sækja sérstaklega um leyfi nema ef um er að ræða vörumerki sem þarf að skrásetja hjá Einkaleyfastofu, þá þarf að sækja um leyfi fyrir notkun fánans til Neytendastofu.

Virðulegi forseti. Nú fáum við væntanlega loks að sjá hin íslensku gæði sem við þekkjum í íslenskum landbúnaðarvörum og sjávarafurðum og grænmeti, svo dæmi sé tekið, markaðssett undir þjóðfánanum með ímynd hins íslenska ferskleika og hreinleika. Þetta mun án efa efla íslenska vöru og framleiðslu eins og hún er skilyrt og skilgreind hér, bæði til útflutnings og sölu til ferðamanna sem eiga leið um landið. Það fer vel á því að Neytendastofa, sem starfar eftir lögum um eftirlit með markaðssetningu og viðskiptaháttum, fari með eftirlit, eins og lagt er til í frumvarpinu. Það er reyndar mikilvægt að eftirlitið sé skilvirkt og vandað til þess að markmiðið með notkun fánans gangi eftir eins og lagt er upp með, þ.e. að notkun fánans muni í raun styrkja og efla íslenska framleiðslu og atvinnulíf.

Það má búast við því að einhverjir vilji ganga lengra eða skemur eftir atvikum þegar kemur að skilyrðingum og jafnframt um þann þátt sem snýr að 30 ára markinu eða framleiðslutímanum. Það verður alltaf umdeilanlegt atriði, eins og ég kom inn á fyrr í ræðu minni. Í upphaflegu frumvarpi var lagt til að hálfa öld þyrfti til. Ég hef trú á því að þessi tími verði ræddur enn frekar.

Tekið er fram í frumvarpinu að samráð hafi verið haft við helstu hagsmunasamtök og hagsmunaaðila og að almennur stuðningur hafi verið við þær breytingar sem nú er lagðar til. Mér sýnist við þessa fyrstu yfirferð að vel hafi tekist til og reynt hafi verið að tryggja að fáninn sé sannarlega notaður til að auðkenna gæði og sérstöðu íslenskrar framleiðslu, en um leið reynt að tryggja að notkun fánans sé sýnd tilhlýðileg virðing og að hann verði ekki notaður til að blekkja neytendur eða að einhverju leyti notaður á óviðeigandi hátt.

Virðulegi forseti. Það er vonandi að við sjáum nú breytingar í samræmi við þetta frumvarp sem verða til þess að íslensk fyrirtæki geti nýtt fánann og auðkennt gæðaframleiðslu sína, íslensku atvinnulífi til framdráttar. Ég hlakka því til að fá málið til umfjöllunar að nýju í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem ég á sæti.