144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

framhald uppbyggingar Landspítalans.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að þetta mál sé nokkurn veginn á áætlun og algjörlega í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er hins vegar ekki rétt hjá hv. þingmanni að samþykkt hafi verið þingsályktun um nýjan Landspítala við Hringbraut. Það var sérstaklega rætt um að ekki væri hægt að fallast á það orðalag meðan menn væru enn þá að fylgja þeirri nálgun að bregðast við þeim skorti á viðhaldi sem átti sér stað á síðastliðnu kjörtímabili þar sem Landspítalinn varð fórnarlamb gríðarlega mikils og síendurtekins niðurskurðar, sem bitnaði m.a. á fasteignum spítalans. Þar af leiðandi hefur áherslan til að byrja með verið á að bæta þar úr, ráðast í nauðsynlegar bráðaaðgerðir á húsnæði spítalans og uppbyggingu eftir þörfum.